George Bush eldri lagður inn á spítala

George H.W. Bush var forseti Bandaríkjanna 1989-93. Hann er elstur …
George H.W. Bush var forseti Bandaríkjanna 1989-93. Hann er elstur núlifandi Bandaríkjaforseta. Af vef Wikipedia

George H.W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og kona hans Barbara Bush hafa verið lögð inn á sjúkrahús í Houston í Texas.

Bush, sem var 41. forseti Bandaríkjanna og er 92 ára gamall, var lagður inn á spítala á laugardag vegna sárra öndunarerfiðleika í kjölfar lungnabólgu.

Forsetinn fyrrverandi er nú á gjörgæslu, en hann fór í aðgerð til að hreinsa öndunarveginn. Barbara Bush var síðan lögð inn á sjúkrahús í dag vegna þreytu og hósta.

Bush er elstur núlifandi Bandaríkjaforseta og hefur fréttavefur BBC eftir talsmanni hans að hann muni geta farið heim aftur eftir nokkra daga.

Forsetinn fyrrverandi skrifaði Donald Trump, sem tekur við embætti forseta á föstudag, fyrr í þessum mánuði þar sem hann útskýrði fjarveru sína við innsetningarathöfnina. Sagði Bush lækna sína hafa sagt að ef hann sæti úti í janúar þá yrði það honum líklega aldurtila.

„Það sama gildir um Barböru. Þannig að ég býst við að við séum föst í Texas,“ sagði forsetinn í bréfi sínu og bætti við að hann yrði með Trump og Bandaríkjunum „í anda“.

Bush er með Parkinson og notar orðið hjólastól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert