McCartney í mál við Sony vegna Bítlalaga

Paul McCartney og Yoko Ono. McCartney reynir nú að fá …
Paul McCartney og Yoko Ono. McCartney reynir nú að fá aftur útgáfuréttinn að lögum þeirra Lennon. Ono mun hins vegar ekki fá neitt í sinn hlut, þar sem hún seldi Sony réttinn að lögum Lennon árið 2009. mbl

Tónlistarmaðurinn og Bítillinn Paul McCartney reynir nú að ná aftur yfirráðum yfir tónlist Bítlanna og hefur því höfðað mál gegn Sony útgáfufyrirtækinu. McCartney höfðar málið fyrir bandarískum dómstól og fer þar fram á að fá aftur útgáfuréttinn að 267 lögum Bítlanna.

McCartney reyndi fyrst að öðlast útgáfuréttinn aftur á áttunda áratugnum þegar að tónlistarmaðurinn Michael Jackson bauð betur í útgáfuréttinn. Skuldum hlaðið dánarbú Jackson seldi Sony síðan útgáfurétt að Bítlalögunum í fyrra, auk annarra þekktra laga m.a. New York, New York.

McCartney gerir nú tilraun til að fá útgáfuréttinn með höfundarkröfu um að fá aftur eignarétt á eigin tónlist eftir að ákveðið langan tíma. Ákvæðið er hluti af bandarísku höfundarréttarlöggjöfinni og hafa listamenn á borð við Prins, Billy Joel og Blondie nýtt það á undanförnum árum til að öðlast aftur útgáfurétt að eigin verkum.

Breska hljómsveitin Duran Duran tapaði hins vegar sambærilegu máli fyrir breskum dómstólum, þegar hæstiréttur Bretlands úrskurðaði að samningar sem undirritaðir voru í Bretlandi hefðu forgang á rétt þeirra í Bandaríkjunum.

Samkvæmt breskum lögum geta útgáfufyrirtæki átt útgáfurétt að tónlist í allt að 70 ár eftir andlát listamannsins.

Fréttavefur BBC segir McCartney óttast að Sony muni nota dómsúrskurðinn gegn Duran Duran til að halda útgáfuréttinum að Bítlalögunum. Með því að höfða málið fyrir bandarískum dómstól reynir McCartney að koma í veg fyrir að Sony saki hann um brot á útgáfusamningi. Niðurstaða málaferlanna er talinn geta haft mikil áhrif fyrir aðra breska listamenn.

Samkvæmt bandarískum lögum, er hægt að segja upp útgáfuréttinum á þeim lögum sem þeir Lennon og McCartney sömdu á árabilinu september 1962 til júní 1971,  56 árum eftir að þau voru samin.

Það felur í sér að McCartney gæti eignast útgáfuréttinn að Love Me Do strax á næsta ári, en lög á borð við Come Together og Get Back, losna ekki fyrr en 2025.

Lögfræðingar McCartney hafa að sögn fréttavefjar BBC ítrekað beðið Sony að gangast við rétti tónlistarmannsins til að öðlast útgáfuréttinn á ný, en fyrirtækið hefur til þessa neitað þeirri kröfu.

Hluti Lennons í lögum Bítlanna mun hins vegar ekki renna til baka í dánarbú hans af því að ekkja hans, Yoko Ono, seldi Sony réttinn að lögunum 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert