Óttast um börn í snjóflóðinu

Óttast er að nokkur börn séu á meðal þeirra 25 sem enn er saknað eftir að snjóflóð féll á lítið skíðahótel í Gran Sasso fjöll­un­um í Abruzzo héraði í gær. Yfirvöld hafa staðfest að einn hafi farist. Tveir komust lífs af. Þeir voru ekki inni á hótelinu þegar flóðið féll. Snjóflóðið féll eftir jarðskjálfta sem voru á svæðinu í gær.  

Flogið var með þá tvo sem lifðu af með þyrlu á sjúkrahús. Þeir eru ekki lífshættu. Annar þeirra sagði að konu sinnar og barns væri enn saknað. Gestir hótelsins eru um 20 talsins og starfsfólk um sjö til átta. 

Frétt mbl.is: Fjöl­marg­ir látn­ir í snjóflóði

Björgunarsveitir áttu erfitt með að komast á svæðið því tveggja metra djúpur snjór féll á veginn að hótelinu og einnig var veður ekki gott á svæðinu. Fyrstu björgunarsveitarmenn þurftu að skíða 10 kíló­metra langa leið til að komast á svæðið. Þyrlur voru einnig notaðar við björgunarstarfið í fyrstu. 

Brak úr hótelinu barst að minnsta kosti 10 metra með snjóflóðinu sem er að minnsta kosti tveggja metra djúpt. 

Eftirsótt skíðasvæði meðal Ítala

Á svæðinu urðu fjórir stórir jarðskjálftar sem voru yfir fimm stig að styrkleika í gær. Skjálftarnir voru á fjögurra klukkustunda tímabili. Að minnsta kosti einn lét lífið.  

Hótelið er um 90 km frá upp­tök­um jarðskjálftans, sem voru við Montereale, sem er lítið þorp suður af Amatrice. Í ágúst síðastliðnum létust að minnsta kosti 300 manns þegar stór skjálfti skók borgina.  

Snjóflóðaviðvaranir voru sendar út eftir jarðskjálftann í héraðinu sem náði yfir Gran Sasso fjallið sem er 2.912 metra hátt. Svæðið er eftirsótt skíðasvæði og margir fara dagsferðir á svæðinu einkum íbúar Rómar og annarra nærliggjandi borga sem eru á austurströnd Ítalíu.

Tvær íslenskar ferðskrifstofur, Úrval útsýn og Vita ferðir, sem bjóða skiplagðar skíðaferðir til Ítalíu fara ekki á þessar slóðir.

Snjóflóð féll á skíðahótel í Gran Sasso-fjöll­un­um í Abruzzo héraði …
Snjóflóð féll á skíðahótel í Gran Sasso-fjöll­un­um í Abruzzo héraði á Ítalíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert