Ráðast á NATO með ríkisstuðningi

Jens Stoltenberg.
Jens Stoltenberg. AFP

Ítrekaðar ríkisstyrktar tölvuárásir hafa verið gerðar á Atlantshafsbandalagið undanfarin misseri, að sögn Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra bandalagsins. Hann segir nauðsynlegt að NATO herði varnir sínar á netinu.

Á síðasta ári hafi verið gerðar að meðaltali 500 tölvuárásir á NATO á mánuði. Innviðum NATO stafi ógn af þessum árásum og þetta hafi þýtt að sérfræðingar bandalagsins hafi ítrekað þurft að grípa inn. Stoltenberg er í viðtali við þýska dagblaðið Die Welt í dag.

Að sögn Stoltenberg hefur árásum fjölgað um 60% frá árinu 2015. Hann segir að í flestum tilvikum eru árásirnar ekki raktar til einkaaðila heldur þjóðaröryggisstofnunum ríkja. Á næstu ráðstefnu NATO verði eitt helsta umræðuefnið tölvuvarnir og nauðsynlegt sé að auka þær. Hann varar við því að árásarmennirnir geti eyðilagt varnarviðbúnað NATO og hindrað störf vopnaðra hermanna bandalagsins.

„Allur hernaður er í dag byggður á miðlun gagna,“ segir Stoltenberg segir að ef rof verður á miðlun upplýsinga geti það kostað alvarlegt tjón. 

Nokkur vestræn ríki, þar á meðal Bretland, Frakkland og Þýskaland, hafa varað við fjölgun tölvuárása og eru að auka innviði varna sinna til þess að taka á því.

Á meðan Stoltenberg nefnir ekki ríkin á nafn sem bera ábyrgð á árásunum gegn NATO þá hafa Þjóðverjar nokkrum sinnum bent á Rússland í því samhengi. Sem Rússar hafa ávalt neitað.

Yfirmaður leyniþjónustu Þýskalands, Hans-Georg Maaßen, hefur greint frá því að mögulega muni Rússar gera tölvuárásir þar í landi í undanfara kosninganna í september.

Segir Maaßen að ljóst sé að svipað geti verið uppi á teningnum í kosningum í haust líkt og þegar árás var gerð á tölvukerfi þýska þingsins árið 2015 og á skrifstofu Demókrataflokksins í Bandaríkjunum í fyrra. Í báðum tilvikum eru Rússar taldir standa á bak við árásirnar.

Stoltenberg hafnar gagnrýni Donalds Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, um að NATO sé úrelt stofnun sem ráði ekki við baráttuna gegn hryðjuverkum. Segir Stoltenberg að NATO hafi náð verulegum árangri í baráttunni við hryðjuverkamenn og rætt sé um hvernig hægt sé að útvíkka þær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert