Fundu sprengju í Thames

AFP

Breski sjóherinn fargaði í gær sprengju sem fannst í Thames-ánni í London, höfuðborg Bretlands, skammt frá breska þinghúsinu. Talið er að sprengjan hafi verið frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Gripið var til víðtækra varúðarráðstafana eftir að sprengjan fannst og var meðal annars tveimur fjölförnum brúm yfir ána lokað á meðan.

Fram kemur í frétt AFP að lögreglan hafi verið kölluð á staðinn upp úr klukkan 17:00 í gær. Sjóherinn var kallaður til í kjölfarið. Westminister-neðanjarðarlestarstöðin var einnig rýmd um tíma vegna málsins en um háannatíma var að ræða. Sprengjan kom í ljós í flæðarmálinu skammt frá Victoria Embankment segir í fréttinni.

Staðurinn er skammt frá þeim stað þar sem breska hermálaráðuneytið var staðsett í stríðinu en byggingin var notuð af ríkisstjórn Bretlands til fundarhalda og varð fyrir miklum loftárásum. 

Þýski flugherinn varpaði rúmlega 12 þúsund tonnum af sprengjum á London í síðari heimsstyrjöldinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert