„Þetta byrjar allt saman í dag!“

Donald Trump verður í dag settur í embætti forseta Bandaríkjanna en athöfnin hefst eftir tæplega eina klukkustund. Það er klukkan 11:00 að staðartíma í Washington, höfuðborg landsins. Þrátt fyrir úrkomu í höfuðborginni hefur mikill fjöldi stuðningsmanna Trumps lagt leið sína í miðborgina en búist er við að um 800 þúsund manns muni koma þar saman.

„Þetta byrjar allt saman í dag! Ég sé ykkur klukkan 11:00 við embættistökuna. Hreyfingin heldur áfram - vinnan hefst!“ skrifaði Trump á Twitter-síðu sína fyrir um tveimur klukkutímum síðan. Trump mun leggja hönd á Biblíu sem var í eigu eins af forverum hans, Abrahams Lincolns, sem og Biblíu sem hann átti sem barn og fara með embættiseiðinn.

Michelle Obama, Melania Trump, Donald Trump og Barack Obama í …
Michelle Obama, Melania Trump, Donald Trump og Barack Obama í Hvíta húsinu í dag. AFP

Margir voru sannfærðir um að Trump biði lægri hlut fyrir Hillary Clinton, helsta mótframbjóðanda hans, í forsetakosningunum í nóvember og fyrir vikið kom sigur hans fjölmörgum á óvart. Clinton fékk þó fleiri atkvæði en vegna kosningakerfis Bandaríkjanna eru það kjörmenn sem velja forsetann en ekki kjósendur með beinum hætti.

Trump verður elstur til þess að verða forseti Bandaríkjanna en hann er 70 ára gamall. Ronald Reagan er enn sem komið er elstur til þess að taka við embættinu en hann var 69 ára gamall. Þó vantaði einungis nokkra daga upp á 70 ára afmælið hans. Theodore Roosevelt var yngstur til þess að verða forseti Bandaríkjanna árið 1901 en hann var þá 42 ára.

Fjöldi fólks er samankominn fyrir utan bandaríska þinghúsið.
Fjöldi fólks er samankominn fyrir utan bandaríska þinghúsið. AFP

Fleira er sérstakt við Trump í þessu sambandi en hann verður eini forseti Bandaríkjanna til þessa sem hefur aldrei verið kjörinn í opinbert embætti, starfað í ríkisstjórn landsins eða þjónað í bandaríska hernum. Bakgrunnur hans er í viðskiptalífinu. Það sem hefur höfðað til margra kjósenda er einmitt að hann er ekki hefðbundinn stjórnmálamaður.

Fram kemur í frétt AFP að í hugum marga gagnrýnenda Trumps sé embættistaka hans nær því að vera fjandsamleg yfirtaka líkt og þekkist í viðskiptalífinu en hefðbundin embættistaka nýs forseta. Hópur mótmælenda hafi safnast saman í Washington og kallað slagorðið: „Ekki minn forseti!“ Stefnt er að mun fjölmennari mótmælum á morgun.

AFP

Stuðningur við Trump mælist 37% samkvæmt skoðanakönnun á vegum sjónvarpsstöðvarinnar CBS sem er það lægasta sem verðandi forseti hefur mælst með við embættistöku sína samkvæmt fréttinni. Trump og Melania, eiginkona hans, hittu Barack Obama, fráfarandi forseta, og eiginkonu hans Michelle í Hvíta húsinu fyrr í dag.

Trump og Obama og fjölskyldur þeirra munu síðan fara saman niður Pennsylvaníu-breiðgötuna í Washington um fjögurra kílómetra leið að bandaríska þinghúsinu þar sem embættistakan fer fram. Eftir að hafa svarið embættieiðinn flytur Trump ræðu sína. Eftir ræðuna fer Trump til hádegisverðar í þinghúsinu og heldur síðan til starfa í Hvíta húsinu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert