16 skólabörn farast í rútuslysi á Ítalíu

16 manns létust þegar kviknaði í rútu með hóp skólabarna eftir árekstur á norðurhluta Ítalíu. Rútan var á heimleið frá Frakklandi til Ungverjalands með hóp nema þegar hún lenti á brúarstólpa utan við hraðbraut í nágrenni Veróna seint í gærkvöldi.

Fréttavefur BBC hefur eftir ítalska slökkviliðinu að 39 til viðbótar hafi slasast í árekstrinum og eru tíu þeirra að sögn Ansa-fréttastofunnar alvarlega slasaðir.

Rútan var á leið til Búdapest með nemendurna, sem voru aðallega drengir á aldrinum 14-18 ára, og voru þeir á heimleið eftir að hafa verið í fjallafríi í Frakklandi.

Ekki er vitað af hverju rútan fór út af veginum, en Ansa segir hluta farþeganna hafa verið fasta inni í rútunni þegar eldurinn kom upp.

Judit Timaffy, ræðismaður Ungverjalands í Mílanó, sagði íþróttakennara sem var með nemunum hafa náð að bjarga nokkrum þeirra með því að fara aftur inn í eldhafið til að ná þeim út. Kennarinn er sagður vera með nokkur brunasár eftir björgunaraðgerðirnar.

Mynd frá ítalska slökkviliðinu af slysstað. Rútan brann til kaldra …
Mynd frá ítalska slökkviliðinu af slysstað. Rútan brann til kaldra kola eftir slysið. 16 fórust og 39 til viðbótar eru særðir, þar af 10 alvarlega. AFP
Ættingjar faðma nemendurna eftir rútuslysið.
Ættingjar faðma nemendurna eftir rútuslysið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert