20 farast í sprengjuárás í Pakistan

20 manns hið minnsta fórust og 40 særðust í árás er sprengja sprakk á grænmetismarkaði í norðvesturhluta Pakistan í dag. Árásin átti sér stað í borginni Parachinar í nágrenni afgönsku landamæranna og er meirihluti íbúa þar sjía-múslimar.

Margt fólk var á markaðinum þegar sprengjan sprakk og hefur fréttavefur BBC eftir pakistönskum yfirvöldum að búast megi við að tala látinna eigi eftir að hækka.

Hryðjuverkasamtök talibana í Pakistan hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni og segja að markmiðið hafi verið að „hefna drápa á félögum okkar“. Kenna hafi átt sjía-múslimum lexíu fyrir að styðja Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.

Varaði talsmaður talibana því næst við því að sjía-múslimar mættu búast við frekari árásum haldi þeir stuðningi sínum við Assad áfram í Sýrlandsstríðinu.

Ekki liggur enn ljóst fyrir hvar sprengjunni var fyrir komið. Hafa sumir fjölmiðlar sagt að henni hafi verið komið fyrir í grænmetiskassa á markaðinum, en aðrir segja sjálfsvígsmann hafa verið þar á ferð.

Sabir Hussain, læknir við aðalsjúkrahúsið í Parachinar, sagði AP-fréttastofunni að komið hefði verið með 11 lífshættulega særða á sjúkrahúsið og að þeir hefðu látist skömmu síðar. Þá væru nokkrir til viðbótar alvarlega særðir og að til stæði að flytja þá á önnur sjúkrahús þar sem þeir gætu fengið betri meðhöndlun.

Lögregla rannsakar vegsummerki eftir að sprengja sprakk á grænmetismarkaði í …
Lögregla rannsakar vegsummerki eftir að sprengja sprakk á grænmetismarkaði í Parachinar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert