23 enn saknað eftir snjóflóðið

Líkur á að einhver finnist á lífi undir snjóflóðinu sem féll á skíðahótel á Ítalíu fyrr í vikunni fara sífellt minnkandi. Enn er 23 saknað eftir snjóflóðið fyrir þremur dögum.

Alls hafa 11 fundist á lífi, þar á meðal fjórir snemma í morgun. En ekkert lífsmark hefur greinst undir snjónum og ef einhverjir eru enn á lífi þá bíður þeirra fjórða nóttin í ískulda undir snjónum.

Í gær fundust fjögur börn á lífi inni í hótelinu ásamt móður tveggja þeirra og í morgun fundust tveir karlar og tvær konur á lífi, tæpum þremur sólarhringum eftir að flóðið féll á hótelið. 

Hótel Rigopiano er í 1.200 metra hæð yfir sjávarmáli og eru aðstæður til leitar mjög erfiðar. Bæði er allt á kafi í snjó og eins er skyggni mjög lélegt.

Meðal þeirra sem er saknað er Luana Biferi, sem vinnur í eldhúsi hótelsins. Nágranni hennar vonast til þess að hún hafi verið í eldhúsinu þegar snjóflóðið féll á hótelið þar sem meiri möguleikar eru á að veggir þess hafi geta varið hana. Hann segir að hún hafi ekki átt að vera í vinnu þennan dag en ákveðið að vera einn dag í viðbót. Síðan hefur ekkert spurst til hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert