Elítu-skóli til rannsóknar

Lundsbergs-skólinn.
Lundsbergs-skólinn. Af Facebook-síðu skólans.

Skrifstofa skólamála í Svíþjóð hefur krafist svara frá Lundsbergs-heimavistarskólanum um hvað sé hæft í fréttum um að nemendur hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í skólanum. Skólinn er afar vinsæll meðal yfirstéttarfólks í Svíþjóð. Til að mynda var Karl Filip prins nemandi í skólanum á sínum tíma og er skólinn oft nefndur Eton Svíþjóðar.

Samkvæmt óstaðfestum heimildum Aftonbladet er lögreglan að rannsaka myndbandsupptökur sem sýna stúlkur beittar kynferðislegu ofbeldi. Um er að ræða myndefni sem var tekið upp án vitundar stúlknanna sem eru nemendur við skólann.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ásakanir eru hafðar uppi um ofbeldi meðal nemenda skólanna. Árið 2013 krafðist skólaskrifstofan þess að skólanum yrði lokað eftir að ásakanir komu fram um að eldri nemendur hefðu brennt nýnema með straujárni.

Samkvæmt frétt Aftonbladet var það starfsfólk skólans sem tilkynnti um ofbeldi nemenda við skólann. Lögreglan staðfestir við blaðið að kvartanir hafi borist og þetta varði atburði sem hafi gerst fyrir löngu. Aftur á móti virðist sem málin séu fleiri, meðal annars hafi komið til átaka milli nemenda og annar þeirra hafi verið sendur heim vegna óviðurkvæmilegs orðbragðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert