Farage til liðs við Fox News

Farage heimsótti forsetann verðandi í Trump Tower 15. desember sl.
Farage heimsótti forsetann verðandi í Trump Tower 15. desember sl. AFP

Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Ukip, hefur gengið til liðs við bandarísku sjónvarpsstöðina Fox News sem stjórnmálaskýrandi. Tilkynning um ráðningu Farage var send út á meðan Donald Trump sór embættiseiðinn í gær.

Fox er í eigu Rupert Murdoch, sem er sagður hafa freistað þess að styrkja tengslin við Trump eftir sigur þess síðarnefnda í forsetakosningunum. Þá var hann talsmaður þess að Bretar kysu að ganga úr Evrópusambandinu.

Gabriel Sherman, blaðamaður hjá New York Magazine, hefur sagt frá því að Murdoch ræði við Trump að minnsta kosti þrisvar í viku.

Trump hefur fyrir sitt leyti mært Farage og stillti sér upp fyrir ljósmyndara með honum stuttu eftir kosningasigurinn. Tísti hann í framhaldinu að Farage gæti orðið frábær sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum.

Á fimmtudag efndu Farage og Aaron Banks, sem fjármagnaði Leave EU-herferðina, til viðburðar á hóteli í Washington nærri Hvíta húsinu. Þar fór Farage fögrum orðum um Trump og sagði m.a.: „Brexit er frábær en Trump er Brexit plús plús plús.“

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert