Fleirum bjargað úr snjóflóðinu

Barni bjargað úr rústunum í gær.
Barni bjargað úr rústunum í gær. AFP

Björgunarmenn björguðu í dag fjórum til viðbótar úr rústum Rigopiano-hótelsins á Ítalíu eftir að það grófst undir snjó þegar snjóflóð féll á skíðasvæði í fjallinu Gran Sasso. Kona og fjögur börn björguðust í gær.

Tvær konur og maður voru grafin úr rústunum um kl. 2 í nótt og annar maður í dagrenningu. Ellefu hafa fundist á lífi en fjórir látnir. Að minnsta kosti 12 er saknað, mögulega 20. Óvíst er hversu margir voru á hótelinu þegar snjóflóðið féll.

Fjöldi lögreglumanna, slökkviliðsmanna og annarra viðbragðsaðila hefur komið að aðgerðunum, sem hafa gengið hægt þar sem menn vilja ekki valda frekara hruni. Mikið snjólag liggur á rústunum og óttast menn að þær geti fallið enn meira saman.

Svo virðist sem nokkur fjöldi herbergja hafi staðið af sér afl snjóþungans sem féll á bygginguna og því telja menn enn von á því að finna fólk á lífi.

Í ljós kom í gær að börnin fjögur sem dvöldu á hótelinu höfðu öll lifað en þau voru saman að leik í leikherbergi þegar snjóflóðið féll.

mbl.is: 10 fundnir á lífi í snjóflóðinu

Það tók viðbragðsaðila nokkurn tíma að komast á staðinn.
Það tók viðbragðsaðila nokkurn tíma að komast á staðinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert