Loftþrýstingur í miðju hvirfilbyls er mjög lágur og í hvirfilbyljum ríkir í grófum dráttum jafnvægi þrýstikrafts og miðflóttakrafts. Þrýstikraftur togar loft í átt að lægri loftþrýstingi, en því er nánar lýst í svari við spurningu um vind umhverfis lægðir. Miðflóttakraftur leitast við að toga loft sem er í hringhreyfingu frá miðju hringsins. Sá kraftur er til dæmis að verki í þeytivindu sem snýr þvotti í hring og þeytir honum jafnframt út frá miðju vindunnar.

Sökum smæðar hvirfilbylja hefur svigkraftur jarðar hverfandi áhrif á þá. Engu að síður blæs vindur oftar en ekki rangsælis umhverfis hvirfilbylji á norðurhveli jarðar. Eru þar að líkindum komin áhrif sem svigkraftur jarðar hafði á loftstrauminn þar sem hvirfilbylurinn myndaðist.

Hvirfilbyljir myndast í mjög óstöðugu lofti, gjarnan í grennd við þrumuveður. Þeir tengjast miklu uppstreymi á takmörkuðu svæði. Í stað þess lofts sem streymir upp leitar loft inn að miðju uppstreymisins og við það margfaldast snúningur þess, líkt og þegar listdansari á skautum leggur hendurnar upp að líkamanum.

Öflugir hvirfilbyljir eru algengir á vorin í Bandaríkjunum og einnig í Ástralíu. Nýlegar rannsóknir benda til að hvirfilbyljir séu einnig algengir á Bretlandseyjum, en þar eru þeir oftast vægir.

Hvirfilbyljir eru sjaldgæfir á Íslandi, og yfirleitt ekki svo ýkja öflugir þá sjaldan þeir verða. Þó eru til frásagnir frá fyrri öldum um veðurskaða sem líklega tengist hvirfilbyljum. Sagt er frá hvirfilbyljum eða skýstrokkum á Íslandi í tímaritinu Veðrinu árin 1958 og 1961.

ABC