Segir að Trump eigi að skammast sín

Fyrrverandi framkvæmdastjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna, John Brennan, er bæði sorgmæddur og reiður eftir heimsókn forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, í höfuðstöðvar CIA í gær.

Brennan ræddi um heimsókn Trumps og ræðu hans. Forsetinn flutti ræðu sína við vegg þar sem þeirra 117 liðsmanna CIA, sem hafa fallið í þágu þjóðar sinnar, er getið. Lunginn af ræðunni fór í að ræða fjöldann sem fylgdist með embættistökunni. Eins var honum tíðrætt um myndir af sér á forsíðum tímarita og að hann væri í stríði við fjölmiðla.

Í tilkynningu sem Nick Shapiro, fyrrverandi aðstoðar-starfsmannastjóri CIA, sendi frá sér í gær er haft eftir Brennan að Trump ætti að skammast sín fyrir framkomu sína á fundi með starfsmönnum CIA þar sem allt snerist um eigin persónu forsetans, ekki framlag starfsfólks CIA. 
CNN hefur eftir heimildum að hluta þeirra sem hlýddu á orð forsetans hafi brugðið við hversu pólitísk ræðan hafi verið, meðal annars vangaveltur hans um hversu mörg þeirra hafi kosið hann. Starf CIA sé hafið yfir stjórnmál og því óviðeigandi að ræða hvað fólk kaus og hvað það kaus ekki.

Trump ræddi meðal annars um að hann vilji eyða öfgafullum íslamistum. Þeir séu af hinu illa. Hvað varðar Írak sagði hann að Bandaríkjamenn hefðu átt að halda olíulindunum þar og jafnvel komi tækifæri til þess síðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert