Þyrlurnar standa óhreyfðar

Þýski herinn notar meðal annars þyrlur af gerðinni NH90.
Þýski herinn notar meðal annars þyrlur af gerðinni NH90. Wikipedia.

Norska landhelgisgæslan hefur lent í vandræðum með þyrlur af gerðinni NH90 þar sem talið er að ekki sé hægt að nota þær í slæmu veðri. Þyrlurnar standa því ónotaðar en ætlunin var að vera með þær um borð í varðskipum landsins.

Aftenposten fjallar um málið í dag en það þykir mikil hneisa enda áttu þær að nýtast við eftirlit gæslunnar með fiskveiðiskipum.

Undanfarin tvö ár hafa varðskipin verið án þyrlu þar sem eldri þyrlur af Lynx-gerð voru orðnar gamlar og úreltar.

Keyptar voru þyrlur af NH90-gerð fyrir sjö milljarða norskra króna, sem svarar til 94 milljarða íslenskra króna.

Önnur ríki, sem hafa keypt sams konar þyrlur, hafa tekið þær í notkun en Aftenposten fékk það staðfest hjá landhelgisgæslunni að ástæðan fyrir því að þar sé ekki búið að taka þær í notkun er ótti manna um hvernig þeim reiði af um borð í varðskipunum í aftakaveðri.

Frétt Aftenposten í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert