18 látnir í aftakaveðri

AFP

Aftakaveður sem gekk yfir suðausturhluta Bandaríkjanna kostaði átján mannslíf hið minnsta og skilur eftir slóð eyðileggingar. 

Skýstrókar ollu miklum usla í Georgíu-ríki og jöfnuðust heilu hjólhýsabyggðirnar við jörðu. Að sögn íbúa hefur það aldrei upplifað annað eins óveður og það sem gekk yfir um helgina.

Að minnsta kosti fjórtán létust í Georgíu og fimm er enn saknað eftir að skýstrókar fóru eins og eldibrandur um byggðina. 

Í Mississippi dóu fjórir og 20 slösuðust á laugardagsmorguninn þegar skýstrókar fóru yfir suðurhluta ríkisins. 

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, greindi fjölmiðlum frá því í gær að hann hefði vottað ríkisstjóra Georgíu, Nathan Deal, samúð sína. Trump segir að það séu ekki bara íbúar Georgíu sem eigi um sárt að binda heldur einnig Flórída og Alabama.

Neyðarástandi var lýst yfir í sjö sýslum í suðurhluta Georgíu.

Frétt mbl.is: 11 látnir í hvirfilbyljum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert