Íslensk kveðja til kvenna í Írak

Konur í Írak fá sæmdargjöf.
Konur í Írak fá sæmdargjöf. Ljósmynd/UN Woman

UN Women í Írak dreifir sæmdarsettum að andvirði sex milljónir króna sem söfnuðust í neyðarsöfnun samtakanna hér á landi í nóvember síðastliðnum. Í sæmdarsettunum eru helstu nauðsynjar líkt og dömubindi, sápa og vasaljós. 

Konur í Mósúl hafa búið við skelfilegan veruleika undanfarin þrjú ár, síðan vígasveitir íslamska ríkisins lögðu borgina undir sig. Til að vekja athygli á þeim grimma veruleika sem konur í Írak búa við, birti landsnefnd UN Women á Íslandi myndband sem unnið var af auglýsingastofunni Döðlur.

„Óhætt er að segja að myndbandið hafi vakið ómælda athygli ef tekið er mið af þeim mikla stuðningi almennings við átakið,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra landsnefndar UN Women á Íslandi, í tilkynningu. 

Almenningur tók virkilega vel í jólagjöfina, sæmdarsettið sem landsmenn gáfu í nafni vina og vandamanna, að sögn Ingu Dóru sem vill koma á framfæri þökkum við TM á Íslandi sem styrkti gerð myndbandsins auk þess sem hún vill koma fram þakklæti til allra þeirra sem styrktu herferðina með kaupum á sæmdarsetti. 

Hörð átök geisa enn í borginni og á undanförnum þremur mánuðum hafa um 148 þúsund manns flúið heimili sín í Mósúl og eru nú á vergangi. Fólk hefur flúið meðal annars til Ninewa-svæðisins suðaustur af Mósúl þar sem unnið er að uppsetningu búða fyrir flóttafólk sem fjölgar óðum. UN Women dreifir þar sæmdarsettum til kvenna og samhæfir aðgerðir á svæðinu og tryggir að veitt sé kvenmiðuð neyðaraðstoð, segir jafnframt í tilkynningunni. 

Neyðin í Írak er mikil og ekkert lát virðist á fólksflóttanum. Enn er hægt að styrkja starf UN Women í Írak með því að senda SMS-ið KONUR í 1900 (1.490 kr.).

Starfsmenn UN Women dreifa sæmdarsettunum.
Starfsmenn UN Women dreifa sæmdarsettunum. Ljósmynd/UN Woman
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert