Mega ekki semja um viðskipti

AFP

Evrópusambandið varaði bresk stjórnvöld við því í dag að þau gætu ekki átt í formlegum viðræðum við önnur ríki um viðskipti fyrr en Bretland hefði formlega yfirgefið sambandið. Viðvörunin kemur í kjölfar frétta af því að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sé á förum til Bandaríkjanna síðar í vikunni til fundar við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þar sem meðal annars standi til að ræða mögulegan fríverslunarsamning á milli landanna.

„Viðskiptamál eru alfarið á könnu Evrópusambandsins. Það má ræða um málaflokkinn en ekki er hægt að semja um viðskiptasamninga nema utan sambandsins,“ sagði Margaritis Schinas, talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, við blaðamenn í Brussel í dag. Vísaði hann til þess að ríki sambandsins hefðu framselt fullveldi sitt til þess að semja um viðskipti við önnur ríki til stofnana þess. Hann bætti við að hins vegar mætti spjalla um viðskipti.

May hefur þegar reynt á þolrif Evrópusambandsins í þessum efnum með fundum með forystumönnum ríkja eins og Indlands, Nýja-Sjálands og Ástralíu um mögulega fríverslunarsamninga eftir að Bretland yfirgefur sambandið. Ríkisstjórn hennar hefur lagt megináherslu á að semja hratt um viðskipti þegar Bretland verður komið úr Evrópusambandinu. Meðal annars við Bandaríkin og Kína og fleiri ríki.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert