Trump fundar fyrr með May

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, heldur til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, síðar í þessari viku til fundar við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Independent að talsmenn Hvíta hússins hafi staðfest að fundurinn verði á föstudaginn. Gert er ráð fyrir að May verði í tvo daga í Bandaríkjunum.

Rætt hafði verið um að May og Trump myndu hittast nokkrum vikum eftir embættistöku forsetans sem fór fram á föstudaginn. Hins vegar kemur fram í fréttinni að ákveðið hefði verið að flýta fundarhöldunum af hálfu bandarískra stjórnvalda til þess að styrkja í sessi samband Bandaríkjanna og Bretlands samkvæmt fréttavef breska blaðsins Daily Telegraph.

Trump hefur lýst áhuga sínum á að eiga í nánu samstarfi við May með hliðstæðum hætti og var fyrir hendi á sínum tíma á milli forvera hans, Ronalds Reagan, og þáverandi forsætisráðherra Bretlands, Margaret Thatcher. Búist er við að meðal þess sem rætt verði um á fundinum verði fyrirhugaður fríverslunarsamningur á milli Bretlands og Bandaríkjanna.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert