Brexit þarf samþykki þingsins

David Neuberger, forseti Hæstaréttar Bretlands, (fyrir miðri mynd) sést hér …
David Neuberger, forseti Hæstaréttar Bretlands, (fyrir miðri mynd) sést hér greina frá niðurstöðunni í morgun. AFP

Ríkisstjórn Bretlands ber að leita samþykkis breska þingsins áður en formlegt úrsagnarferli landsins úr Evrópusambandinu verður hafið með virkjun greinar 50 Lissabon-sáttmála sambandsins. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar Bretlands. Ellefu dómarar dæmdu í málinu og studdu átta þessa niðustöðu en þrír voru henni hins vegar ósammála.

Hæstiréttur Englands og Wales hafði áður komist að sömu niðurstöðu síðasta haust. Ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, áfrýjaði niðurstöðunni til Hæstaréttar Bretlands í kjölfarið og lýsti ráðherrann því yfir að hún væri vongóð um að niðurstaðan yrði sú að ríkisstjórn hefði heimild til þess að hefja úrsagnarferlið án samþykkis þingsins.

Breskir fjölmiðlar hafa hins vegar fullyrt að ríkisstjórnin hafi búist við því að niðurstaðan yrði henni ekki hagstæð. Fram hefur komið í fréttum þeirra að fyrir vikið hafi stjórnvöld látið semja fjögur mismunandi lagafrumvörp eftir því hver niðurstaðan yrði nákvæmlega. Ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á að bregðast hratt við niðurstöðunni hver sem hún kynni að verða.

AFP

Hins vegar komst Hæstiréttur Bretlands einróma að þeirri niðurstöðu að þing og ráðamenn Skotlands, Wales og Norður-Írlands hefðu ekki neitunarvald þegar kæmi að ákvörðunni um að segja skilið við Evrópusambandið. Tengslin við sambandið og utanríkismál væru á könnu ríkisstjórnar Bretlands og breska þingsins en ekki stjórnvalda eða þinga einstakra hluta ríkisins.

Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæði í júní að Bretlands segði skilið við Evrópusambandið. Bretar hafa verið hluti sambandsins og forvera þess frá árinu 1973.

Dómurinn í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert