Reiðubúinn að hunsa Schengen

François Fillon.
François Fillon. AFP

François Fillon, forsetaframbjóðandi mið- og hægrimanna í Frakklandi, hét því í dag að koma aftur á raunverulegri landamæragæslu til þess að vernda landið gegn straumi innflytjenda og hryðjuverkamönnum. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en Fillon er ásamt Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, miðað við skoðanakannanir líklegastur til þess að verða næsti forseti Frakklands.

„Þar sem landamæri Evrópusambandsins eru ekki varin af samstarfsþjóðum okkar mun Frakkland taka aftur upp landamæragæslu á landamærum þess,“ sagði Fillon. Sagðist hann ætla að hafa að engu Schengen-samstarfið sem gengur út á að fella niður landamæraeftirlit á milli þátttökuríkja en styrkja það á ytri landamærum svæðisins. Samstarfið hefur verið gagnrýnt harðlega á þeim forsendum að gæsla á ytri mörkum þess sé víða í molum.

Fillon sagði að gera þyrfti umbætur á Schengen-samstarfinu og tryggja að gæslan á ytri landamærum þess væri áreiðanleg. Fram kemur í fréttinni að Fillon virtist hins vegar hafa litla trú á að sú yrði raunin og því myndi Frakkland auka landamæragæslu sína. Innflytjendamál hafa verið helsta kosningamálið í aðdraganda forsetakosninganna í kjölfar flóttamannavandans innan Evrópusambandsins og hryðjuverkaárása í landinu.

Þátttökuríki Schengen-samstarfsins eru 26. Þar af 22 ríki Evrópusambandsins og fjögur aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Noregur, Ísland, Sviss og Liechtenstein.

Forsetakosningarnar í Frakklandi fara fram 23. apríl en fái enginn frambjóðandi hreinan meirihluta fer önnur umferð þeirra fram 7. maí á milli tveggja efstu frambjóðendanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert