Úrskurður réttarins breytir engu

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breskur almenningur kaus að yfirgefa Evrópusambandið. Ríkisstjórnin mun standa við þann úrskurð og virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans fyrir lok marsmánaðar. Úrskurður Hæstaréttar, sem kveðinn var upp í dag, breytir því í engu.

Þetta segir í tilkynningu frá Downing-stræti 10, skrifstofur breska forsætisráðherrans Theresu May.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að þingið studdi þjóðaratkvæðagreiðsluna með sex atkvæðum fyrir hvert eitt sem greitt var gegn henni, og hefur þegar gefið til kynna stuðning við áframhaldandi útgönguferli,“ segir svo í tilkynningunni.

„Við virðum úrskurð Hæstaréttar og munum kynna næstu skref fyrir þinginu bráðlega.“

Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins. AFP

Ríkisstjórnin gefi út skýra áætlun

Í tilkynningu frá leiðtoga Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, segir að flokkurinn muni virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og vilja bresks almennings. Hann muni þá ekki spilla fyrir komandi ferli við virkjun 50. greinarinnar.

Þó muni hann reyna að breyta frumvarpi þess efnis, til að koma í veg fyrir að Íhaldsflokkurinn noti Brexit til að „breyta Bretlandi í ómerkilegt skattaskjól undan ströndum Evrópu.“

Verkamannaflokkurinn krefjist þess þá af ríkisstjórninni að hún gefi út skýra áætlun til að tryggja að hún sé ábyrg gagnvart þinginu á meðan samningaviðræðunum stendur, og að þingið fái að kjósa um endanlegan samning um brottgöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert