Fordæma uppbyggingahugmyndir Ísraela

Givat Zeev, er meðal landtökubyggða Ísraela á Vesturbakkanum. Ísraelsk stjórnvöld …
Givat Zeev, er meðal landtökubyggða Ísraela á Vesturbakkanum. Ísraelsk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau ætli að byggja 2500 heimili til viðbótar í landtökubyggðunum. AFP

Sameinuðu þjóðirnar fordæma áætlanir ísraelskra stjórnvalda að halda áfram byggingu á landtökubyggðunum á Vesturbakkanum. Fréttavefur BBC hefur eftir talsmanni Sameinuðu þjóðanna að „einhliða aðgerðir“ væru hindrun gegn því að það tækist að koma á friði sem byggði á tveggja ríkja lausn.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, greindi frá því í gær að ísraelsk stjórnvöld hygðust reisa 2.500 heimili til viðbótar í byggðum gyðinga á landtökusvæðunum til að „bregðast við húsnæðisþörfinni“.

Frétt mbl.is: „Nú getum við loksins farið að byggja“

Þetta er önnur tilkynningin um aukna uppbyggingu í landtökubyggðum sem ísraelsk stjórnvöld senda frá sér síðan að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta á föstudag.

Palestínsk stjórnvöld segja framkvæmdaáætlanirnar grafa undan friðarviðræðunum.

„Hvað aðalritarann varðar þá er ekkert plan B varðandi tveggja ríkja lausnina,“ sagði Stephane Dujarric, talsmaður Antonio Guterres aðalritara Sameinuðu þjóðanna, við BBC.

„Báðir deiluaðilar þurfa að taka þátt í alvöru viðræðum til að komast á tveggja ríkja lausninni, Ísrael og Palestína. Tvö ríki fyrir tvær þjóðir.“

Trump hefur áður gefið til kynna að hann verði skilningsríkari á byggingaráform Ísraela í landtökubyggðunum, en forveri hans í embætti var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert