Bachelet segir eldana þá verstu í sögu Chile

Miklir skógareldar geisa nú í Chile og hefur stjórnvöldum þegar borist aðstoð frá erlendum ríkjum til að ráða niðurlögum eldanna, sem þegar hafa brennt einn bæ til grunna.

Fréttavefur BBC segir rússnesk stjórnvöld hafa sent Chile-búum sérstaka flutningsvél sem borið getur fleiri tonn af vatni,sem hægt er að sleppa yfir eldana og þá hafa stjórnvöld í Mexíkó og Argentínu einnig sent Chile-búum aðstoð.

Þúsundir slökkviliðsmanna vinna að því að hemja skógareldana, sem dreifast hratt út vegna sterkra vinda og mikilla þurrka undanfarið.  Eldarnir eru hvað verstir í miðhluta Chile og er eyðileggingin í bænum Santa Olga algjör.

Forseti Chile, Michelle Bachelet, hefur þegar fyrirskipað auknar fjárheimildir til að ráða niðurlögum eldanna sem hún segir þá verstu í sögu landsins.

Eldarnir hafa þegar eyðilagt 155.000 hektara lands í miðhluta Chile og 4.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín að því er AFP-fréttastofan hefur eftir Almannavörnum Chile og hafa sjö manns hið minnsta látið lífið í eldunum, þar af þrír slökkviliðsmenn.

Eyðileggingin í bænum Santa Olga er algjör.
Eyðileggingin í bænum Santa Olga er algjör. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert