Sýrlenskir flóttamenn fá ekki inngöngu

Donald Trump Bandaríkjaforseti í varnarmálaráðuneytinu í gær.
Donald Trump Bandaríkjaforseti í varnarmálaráðuneytinu í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur bannað sýrlenskum flóttamönnum að koma til landsins, þangað til annað verður ákveðið. Þetta er hluti af áætlun hans um að „halda róttækum íslömskum hryðjuverkamönnum frá Bandaríkjunum“.

Trump skrifaði undir tilskipun þess efnis í gærkvöld. Í henni kemur fram að hlé verði gert á móttöku flóttamanna í þrjá mánuði.

Frétt mbl.is: Enginn skal efast um hernaðarstyrkinn

Einnig hefur verið komið í veg fyrir vegabréfsáritun fólks frá sex löndum þar sem múslimar eru í meirihluta.

Í tilskipun Trumps felst eftirfarandi:

  • Hlé verður gert á móttöku flóttamanna í 120 daga
  • Flóttamenn frá Sýrlandi fá ekki að koma til Bandaríkjanna fyrr en „umtalsverðar breytingar“ verða gerðar
  • Fólk frá Írak, Sýrlandi og fleiri „svæðum sem ber að hafa áhyggjur af“ fá ekki að koma til landins næstu 90 daga. Talið er að Íran, Líbýa, Sómalía, Súdan og Jemen séu hin löndin.
  • Flóttamenn fá framvegis vegabréfsáritun á grundvelli ofsókna vegna trúar þeirra en aðeins ef trúarbrögðin eru iðkuð af minnihlutahópi í heimalandi þeirra.
  • Í mesta lagi 50 þúsund flóttamönnum verður hleypt inn í landið árið 2017, sem er meira en helmingi minna en Barack Obama, forveri Trumps í embætti, fyrirskipaði.

Mannréttindahópar og margir aðrir hafa gagnrýnt ákvörðun Trumps harðlega, að því er kemur fram á BBC

Á meðal þeirra er Malala Yousafzai, friðar­verðlauna­hafi Nó­bels.

Tilskipun Trumps mun hafa miklar breytingar í för með sér því árið 2015 tóku Bandaríkin á móti 64% þeirra flóttamanna sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafði milligöngu um að senda til ríkja heimsins, að því er AFP-fréttastofan greinir frá. 

Frá 1. október 2015 til 30. september 2016 tóku Bandaríkin á móti 84.994 flóttamönnum víðs vegar að úr heiminum.

Trump undirritaði tilskipunina í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna eftir að James Mattis tók við sem varnarmálaráðherra landsins.

„Ég beiti þessum nýju aðferðum til að halda róttækum íslömskum hryðjuverkamönnum frá Bandaríkjunum. Við viljum bara hleypa þeim inn í landið okkar sem vilja styðja landið og elska fólkið okkar frá dýpstu hjartarótum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert