Sakar lögreglu um spillingu

Rodrigo Duterte.
Rodrigo Duterte. AFP

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, segir lögreglu landsins spillta en hann ætlar ekki að gefast upp í baráttunni gegn fíkniefnum í landinu.

Duterte boðar hreinsanir innan lögreglunnar eftir að upplýst var um morð sem lögreglumenn hafa framið, mannrán og rán undir yfirskyni þess að um lið í aðgerðum lögreglunnar gegn fíkniefnasölum sé að ræða.

Að sögn forsetans eru lögreglumenn spilltir upp til hópa og spilling sé innbyggð í kerfi lögreglunnar. Þetta kom fram í máli Duterte eftir að greint var frá því að yfirmenn í fíkniefnalögreglunni hafi staðið á bak við morðið á kaupsýslumanni frá Suður-Kóreu í höfuðstöðvum lögreglunnar. Hann segir að um 40% lögreglumanna tengist ólöglegri starfsemi á Filippseyjum.

Frá því Duterte skar upp herör gegn fíkniefnasölum á Filippseyjum hefur lögreglan skotið yfir 2.500 manns til bana. Lögreglan segir að allir hafi þeir verið drepnir í sjálfsvörn þar sem þeir hafi fyrst skotið á lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert