Fyrirtæki treg til að tjá sig um múslimabannið

Starbucks ætlar að ráða 10.000 flóttamenn til starfa á næstu …
Starbucks ætlar að ráða 10.000 flóttamenn til starfa á næstu fimm árum. Forsvarsmenn flestra annarra bandarískra stórfyrirtækja þegja hins vegar þunnu hljóði um múslimabann forsetans. AFP

Fyrirtæki á borð við Apple, Google og Facebook hafa sent starfsfólki sínu tölvupóst þar sem þau fordæma tilskipun Donald Trumps Bandaríkjaforseta, sem bannar borgurum frá 7 múslimaríkj­um að koma til lands­ins.  Mikill meirihluti forsvarsmanna bandarískra stórfyrirtækja hefur hins vegar þagað þunnu hljóði um tilskipun forsetans. Reuters-fréttastofan segir ástæðuna vera ótta fyrirtækjanna við afleiðingar þess að vera á öndverðum meiði við forsetann.

Reuters segir forsvarsmenn margra fyrirtækja neita að tjá sig um málið og önnur vísi í fyrri yfirlýsingar sínar um mikilvægi fjölbreytni.

Fyrirtæki á borð við Boeing-flugvélaframleiðandann og bílaframleiðendurna Ford og General Motors hafa þegar lent upp á kant við Trump vegna annarra mála og segir Reuters of mikið í húfi fyrir þessi fyrirtæki sem öll hafa neitað að tjá sig um tilskipun forsetans í innflytjendamálum.

Þá vonist fjármálafyrirtækin á Wall Street til þess að nýja ríkisstjórnin létti á reglugerðarumhverfinu sem þeim var sett í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008.

„Fyrirtæki sem eru í fjármálastarfsemi, heilsutengdri starfsemi og bílaframleiðslu líta svo á að þau séu að ganga inn í nýja tíma þar sem dregið verði úr reglugerðarverki og vilja ekki gera neitt sem gæti móðgað nýja keisarann,“ hefur Reuters eftir Cornelius Hurley, framkvæmdastjóra fjármála-, laga- og stefnumálamiðstöðvar Boston University.

„Fjármálafyrirtækin hafa núna beinan aðgang að Hvíta húsinu,“ sagði Erik Gordon, sem kennir við viðskiptadeild Michigan-háskóla. „Þau þurfa ekki að mótmæla opinberlega.“

Meðal þeirra fjármálafyrirtækja sem ekki hafa viljað tjá sig um þessa síðustu tilskipan Trumps eru Goldman Sachs, Citigroup, Bank of America og  Morgan Stanley. Það sama á við um olíufyrirtækin Exxon og Mobil Corp.

Nokkur fyrirtæki tjáðu sig þó um tilskipun Trumps og þannig sagði Mark Parker, forstjóri Nike, fyrirtækið ekki styðja tilskipunina. Þá tilkynnti forstjóri Starbucks að fyrirtækið hygðist ráða 10.000 flóttamenn í vinnu í fjölda landa á næstu fimm árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert