Vilja ekki Trump í opinbera heimsókn

Með undirskriftinni vilja Bretar koma í veg fyrir að Englandsdrottning …
Með undirskriftinni vilja Bretar koma í veg fyrir að Englandsdrottning þurfi að taka á móti Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. AFP

Yfir ein milljón Breta hefur skrifað undir bænaskjal um að bresk yfirvöld hætti við að taka á móti Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá fyrirhugaðri heimsókn þegar hún sótti Trump heim í síðustu viku.

Mjög hefur fjölgað á listanum undanfarna daga eftir að Trump greindi frá því að ríkisborgarar sjö ríkja fengju ekki að koma til Bandaríkjanna næstu mánuði.

May hefur neitað því að fresta móttöku Trumps til Bretlands og segir bænaskjalið byggja á múgsefjun.

Með bænaskjalinu er þess farið á leit að heimsóknin verði ekki opinber svo hægt sé að forða Bretadrottningu frá þeirri skömm að þurfa að taka á móti Trump. 

Þar sem yfir 100 þúsund hafa skrifað undir bænaskjalið verður það tekið fyrir á breska þinginu líkt og lög landsins kveða á um.

Bænaskjalið og fjöldi undirskrifta

Samkvæmt bænaskjalinu, sem er birt á vef breska þingsins, er ekki verið að mæla með því að Trump verði bannað að koma til Bretlands heldur að ferðinni verði breytt úr opinberri heimsókn í almenna heimsókn. Hann sé einfaldlega ekki þess verður að hitta drottninguna né heldur Karl Bretaprins að máli. 

Allir sem eru búsettir í Bretlandi geta skrifað undir bænaskjalið og ef yfir 100 þúsund skrifa undir slíkt bænaskjal þarf þingið að taka málið fyrir. Ekki er langt síðan breska þingið ræddi um hvort banna ætti Trump að koma til Bretlands en tæplega 600 þúsund skrifuðu undir skjal þar að lútandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert