Breyta reglum um blóðgjöf

Nýju reglurnar taka gildi 1. júlí nk.
Nýju reglurnar taka gildi 1. júlí nk. AFP

Stjórnvöld í Sviss hyggjast aflétta banni við blóðgjöf samkynhneigðra og tvíkynhneigðra karla. Þeim mönnum verður hins vegar áfram óheimilt að gefa blóð sem hafa stundað kynlíf með öðrum mönnum á síðustu tólf mánuðum.

Ákvörðunin var tekin að áeggjan Swiss Transfusion SRC, deild innan Rauða krossins sem sér um blóðgjafir.

Svisslendingar voru nokkuð snemma í því að banna hinsegin mönnum að gefa blóð en þeir gerðu það árið 1977, áður en HIV uppgötvaðist. Ástæðan voru aðrir sjúkdómavaldar sem voru að greinast meðal hópsins.

Samkvæmt svissneskum yfirvöldum eru karlar sem stunda kynlíf með körlum enn í meiri áhættu en aðrir á því að smitast af HIV en þeir telja um helming nýgreindra.

Yfirvöld segja stefnubreytinguna hins vegar ekki auka hættuna á smiti með blóðgjöf.

Að takmarka blóðgjöfina við kynlífsiðkun krefst heiðarleika af hálfu blóðgjafa og yfirvöld hafa hvatt fólk til að svara sannleikanum samkvæmt á eyðublöðum sem fylla þarf út áður en blóðgjöf á sér stað.

Breytingin tekur gildi 1. júlí nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert