Íhaldsmaður í sæti dómara

Donald Trump og Neil Gorsuch eftir að tilkynnt var um …
Donald Trump og Neil Gorsuch eftir að tilkynnt var um tilnefninguna. AFP

Afburðasnjall mikilsmetinn íhaldsmaður, Neil Gorsuch, tekur sæti Antonin Scalia við hæstarétt Bandaríkjanna segir Donald Trump forseti Bandaríkjanna eftir að hafa tilkynnt um val sitt á nýjum dómara í nótt. Gorsuch er mikill aðdáandi Scalia sem lést fyrir tæpu ári.

Gorsuch er 49 ára gamall dómari við áfrýjunardómstólinn í Denver. Hann þykir afar trúr stjórnarskrá Bandaríkjanna og mikill fylgismaður svokallaðra hefðbundinna fjölskyldugilda og fremur víðsýnn í trúmálum. Gorsuch nam við Columbia- og Harvard-háskólana og er mikill aðdáandi Scalia sem lést 79 ára að aldri. Hann er sá yngsti sem er tilnefndur í sæti hæstaréttardómara í Bandaríkjunum áratugum saman.

Talið er að Gorsuch geti notið stuðnings öldungadeildarþingmanna bæði úr röðum repúblikana og demókrata en hann þykir hafa ótvíræða hæfileika til málamiðlunar og að skrifa skarpar greiningar sem nauðsynlegt þykir fyrir dómara við æðsta dómstól landsins.

Forystumenn demókrata á þingi eru hins vegar ekki sannfærðir um valið og segir Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, að hann efist um valið. 

Ef Gorusch verður samþykktur af þinginu er hann níundi dómarinn við hæstarétt en þar eru fyrir:

Elena Kagan (56) og Sonia Sotomayor (62), tilnefndar af Barack Obama

John Roberts (62) og Samuel Alito (66), tilnefndir af George W. Bush

Stephen Breyer (78) og Ruth Bader Ginsburg (83), tilnefnd af Bill Clinton

Clarence Thomas (68), tilnefndur af George H.W. Bush

Anthony Kennedy (80), tilnefndur af Ronald Reagan

Neil Gorsuch.
Neil Gorsuch. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert