Sakar Fox News um lygar

Hryðjuverkamaðurinn Alexandre Bissonnette.
Hryðjuverkamaðurinn Alexandre Bissonnette. AFP

Samskiptastjóri forsætisráðuneytis Kanada, Kate Purchase, gagnrýnir bandarísku sjónvarpsstöðina Fox News harðlega fyrir að dreifa lygum (false news) á Twitter um að sá sem væri grunaður um að hafa framið hryðjuverkið í Québec væri frá Marokkó.

Sá sem skaut sex til bana og særði nokkra í moskunni í Québec á sunnudagskvöldið er kanadískur stjórnmálafræðinemi sem aðhyllist þjóðernisskoðanir Marine Le Pen, formanns Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, og Donald Trump forseta Bandaríkjanna.

Um miðjan dag á mánudag birti Fox News á Twitter að sá sem lægi undir grun væri frá Marokkó. Á sunnudagskvöldinu hafði lögreglan greint frá því að tveir væru í haldi vegna árásarinnar en þegar Fox birti tístið hafði lögregla sleppt manninum sem er frá Marokkó úr haldi en hann var vitni að árásinni.

Kate Purchase segir að færsla Fox News á Twitter feli í sér lygi og misvísandi upplýsingar um uppruna mannsins sem grunaður er um hryðjuverkaárásina í moskunni í Québec. Þetta kemur fram í bréfi sem hún hefur sent til yfirmanns Fox, Bill Shine. Þennan sama dag hafi verið upplýst um að sá sem væri í haldi væri 27 ára fransk/kanadískur maður, ekki frá Marokkó. Þrátt fyrir það hafi Fox News ekki séð ástæðu til þess að taka færsluna af Twitter-síðu sjónvarpsstöðvarinnar og haldið áfram að dreifa lyginni.

Fox hefur nú eytt færslunni eftir að Purchase sendi bréfið enda vakti hún mikla reiði meðal almennings í Kanada. 

Sex létust eins og áður sagði í skotárásinni í Sainte-Foy-moskunni og átta særðust. Árásarmaðurinn, Alexandre Bissonnette, var handtekinn eftir að hafa gefið sig fram við yfirvöld. Hann var ákærður á mánudag um sex morð og fimm manndrápstilraunir.

Frétt mbl.is: Var einn að verki

AFP
Blóm í minningu Khaled Belkacemi, prófessors við Laval háskólann í …
Blóm í minningu Khaled Belkacemi, prófessors við Laval háskólann í Québec, en hann er einn fórnarlamba Alexandre Bissonnette. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert