„Ég hef aldrei verið aðstoðarmaður hans“

AFP

Eiginkona François Fillon, forsetaframbjóðanda repúblikana í Frakklandi, Penelope, segir í myndskeiði sem verður birt í franska sjónvarpinu í kvöld að hún hafi aldrei aðstoðað eiginmann sinn í starfi. Spurningin er hvort þetta reynist síðasti naglinn í líkkistu framboðs hans.

Myndskeiðið verður sýnt í franska ríkissjónvarpinu í þætti sem nefnist Envoyé spécial. Viðtalið við Penelope, sem er fædd í Bretlandi, var tekið árið 2007.

Síðustu vik­ur hef­ur Fillon verið tal­inn sig­ur­strang­leg­ast­ur en hann hef­ur átt und­ir högg að sækja síðustu daga vegna ásak­ana um að eig­in­kona hans hafi fengið laun sem aðstoðarmaður hans án þess að hafa í raun starfað fyr­ir hann. Blaðið Le Can­ard Enchaîné seg­ir að eig­in­kon­an hafi fengið háar fjárhæðir á ár­un­um 1998 til 2012 þegar hún var aðstoðarmaður hans. Tvö börn þeirra fengu einnig sam­tals 84.000 evr­ur fyr­ir aðstoð við hann sem þing­mann. Fransk­ir þing­menn mega ráða eig­in­konu sína og börn sem aðstoðar­menn en blaðið seg­ist ekki hafa fundið nein­ar vís­bend­ing­ar um að kona Fillons hafi í raun unnið fyr­ir hann. Eig­in­kon­an er einnig sögð hafa fengið laun sem ráðgjafi bók­mennta­tíma­rits í eigu auðugs vin­ar Fillons án þess að hafa starfað fyr­ir það.

Þáttastjórnandi Envoyé spécial, Elise Lucet, segir í samtali við AFP fréttastofuna að ýmislegt fróðlegt hafi komið í ljós við að horfa á viðtalið sem var löngu gleymt. Breski blaðamaðurinn, sem vann skriflegan hluta viðtalsins fyrir Sunday Telegraph, Kim Willsher, segir í viðtali við AFP ekki rekja minni til þess að spurningin hafi verið borin upp en hún hafi aldrei séð allt myndskeiðið. „Þetta var ekki pólitískt viðtal heldur var þetta viðtal við eiginkonu,“ segir Willsher.

Le Can­ard Enchaîné greindi frá því að Penelope hafi fengið greiddar 830 þúsund evrur sem aðstoðarmaður þingmanns í meira en áratug en þrátt fyrir það man enginn eftir henni í þinginu og að hún hafi nokkurn tíma starfað þar.

Opinber rannsókn er að hefjast á málinu en þau hjón hafa harðneitað ásökunum í þeirra garð. Fillon segir að konan hans hafi unnið fyrir hann hér áður en málið þykir hið vandræðalegasta fyrir hann þar sem Fillon hefur barist fyrir breytingum á vinnulöggjöfinni. Meðal kosningaloforða hans er að ef hann verði kjörinn forseti þá muni hann byrja á því að fækka opinberum starfsmönnum um hálfa milljón. 

Ræða flokksfélagar hans nú um að Fillon dragi sig í hlé og að Alain Juppé komi í hans stað. En í prófkjöri flokksins naut Fillon mun meiri stuðnings kjósenda en Juppé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert