Heimskulegur samningur segir Trump

Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ætlar að endurskoða samning sem ríkisstjórn Barack Obama gerði við áströlsk yfirvöld um móttöku flóttafólks frá Ástralíu. Segir Trump samninginn heimskulegan. Þetta skrifar forsetinn á Twitter en samningurinn bar á góma í samtali Trumps við forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull í síðustu viku. Endaði samtalið á þann veg að Trump skellti á Turnbull. 

Ástralía er talin einn nánasti bandamaður Bandaríkjanna, eitt ríkjanna sem mynda „Five Eyes,“ en það eru ríki sem bandarísk yfirvöld veita viðkvæmar upplýsingar sem leyniþjónustur landsins ráða yfir.

Washington Post fjallar um símtal leiðtoganna og ljóst að ný stefna er í burðarliðunum milli ríkjanna. Á Trump að hafa sagt við Turnbull, skömmu áður en hann sleit símtalinu, að þetta hafi verið erfiðasta símtal dagsins en þennan dag hafi Trump rætt við fjóra af leiðtogum heimsins. Turnbull færðist undan því í dag að ræða frétt WP við fjölmiðla. Segir hann samtal hans við Trump vera trúnaðarmál. En samband ríkjanna sé sterkt.

Turnbull sagði á mánudag að Trump hafi samþykkt að virða samkomulagið en í því felst að Bandaríkin taki við ótilgreindum fjölda flóttafólks sem eru í flóttamannabúðum á Nauru og Papúa Nýju-Gíneu. Alls eru 1600 manns í haldi þar.

Talin var hætta á að Trump myndi rifta samkomulaginu í kjölfar þess að hann fyrirskipaði bann við móttöku flóttafólks til Bandaríkjanna í að minnsta kosti fjóra mánuði og bann við komu fólks frá sjö ríkjum í að minnsta kosti þrjá mánuði.

„Trúið þið þessu? Ríkisstjórn Obama samþykkti að taka við þúsundum ólöglegra innflytjenda frá Ástralíu. Hvers vegna? Ég mun fara yfir þennan heimskulega samning!“, skrifar Trump á Twitter.

Fréttir af samtali Turnbull og Trump eru birtar á sama tíma og ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Mexíkó neita fregnum um að raunveruleikastjarnan fyrrverandi hafi hótað að senda hermenn inn í Mexíkó til þess að takast á við eiturlyfjasamtök þar í landi. Mexíkóskur blaðamaður, Dolia Estevez, vísar í leynilegar bandarískar og mexíkóskar heimildir um að Trump hafi hótað þessu í klukkustundar löngu símtali við forseta Mexíkó, Enrique Peña Nieto, á föstudag. Forsetaembætti beggja ríkja hafa hafnað fréttinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert