Japani stefnir TEPCO vegna hvítblæðis

Sendai-kjarnorkuverið í Fukoshima var endurræst í ágúst 2015, um fjórum …
Sendai-kjarnorkuverið í Fukoshima var endurræst í ágúst 2015, um fjórum og hálfu ári eftir að kjarnorkuslysið varð. AFP

Japani sem starfaði við hreinsun á kjarnorkusvæðinu í Fukushima hefur höfðað mál gegn fyrirtækinu Tokyo Electric Power Company (TEPCO) sem starfrækir svæðið en hann þróaði með sér hvítblæði á meðan hann vann á svæðinu.

Tæp sex ár eru liðin frá því að um 18.500 manns fórust í jarðskjálfta og mikilli flóðbylgju sem kom í kjölfar hans. Flóðbylgjan olli kjarnorkuslysi í í Fukushima en slysið var það versta síðan í Tsjernobyl árið 1986.

Maðurinn er sá fyrsti sem vinnuyfirvöld viðurkenna að hafa orðið veikur vegna vinnu við hreinsun í kjarnorkuverinu.

Samkvæmt frétt BBC varð maðurinn fyrir minni geislun en sem nemur hámarki opinberra viðmiða. Nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins kvað þó upp úrskurð í október 2015 um að veikindi mannsins væru tengd geisluninni sem hann  varð fyrir við vinnuna. Nefndin sagði manninn því eiga rétt á bótum. Fyrirtækið setur spurningamerki við úrskurðinn og hefur því neytað kröfu mannsins um skaðabætur.

Frá því að kjarnorkuslysið varð árið 2011 hefur ákveðnum hluta svæðisins verið haldið lokuðu en þúsundir manna vinna þó ennþá að hreinsun utan þess svæðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert