Spenna verið að magnast í langan tíma

Kveikt var í ruslu og rúður brotnar til að mótmæla …
Kveikt var í ruslu og rúður brotnar til að mótmæla komu Milo Yiannopoulos til Berkley. AFP

Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í Berkeley í gær vegna fyrirhugaðs fyrirlesturs Milo Yiannopoulos, ritstjóra hægriöfga-fréttaveitunnar Breitbart.  Kveikt var í tré, rúður brotnar og skemmdir unnar á fyrirtækjum, og beitti óeirðalögregla táragasi og gúmmíkylfum á mótmælendur.

Skólayfirvöld Berkeley Háskóla tilkynntu skömmu áður en fyrirlesturinn átti að hefjast að hætt hefði verið við að leyfa Yiannopoulos að tala.

Yiannopoulos er gallharður stuðningsmaður nýja forsetans Donald Trump og segja gagnrýnendur hann vera bæði rasista og kvenhatara. Á síðasta ári var honum úthýst af samfélagsmiðlinum Twitter fyrir að fara fyrir herferð gegn leikkonunni Leslie Jones.

Það var félag repúblikana í skólanum sem stóð að heimsókn Yiannopoulos. Fréttavefur BBC hefur eftir talsmanni félagsins, Pieter Sittler, að hann væri ekki sammála öllum skoðunum ritstjórans en að hann gæfi íhaldsmönnum rödd, sem fengju lítið færi á að tjá sig í bandarískum háskólum.

Donald Trump hótar núna að draga úr fjárframlögum alríkisstjórnarinnar til Berkeley-háskólans vegna mótmælanna í gær.

„Ef Berkeley heimilar ekki málfrelsi og beitir saklausu fólki með ólíkar skoðanir ofbeldi - Engir alríkis fjármögnun?,“ skrifar Trump á Twitter í dag. 

Helsti ráðgjafi Trumps í stjórnmálum er Stephen Bannon en hann er fyrrverandi stjórnarformaður Breitbart News.

Búin að vera að byggjast upp spenna í margar vikur

Anna Marsibil Clausen, meistaranemi í blaðamennsku við Berkeley háskóla og fyrrum blaðamaður mbl.is, segir hafa legið í loftinu í margar vikur að komu Yiannopoulos yrði mótmælt. „Upphaflega vissi enginn á háskólasvæðinu hver Yiannopoulos var, fyrir utan lítinn hóp fólks sem var eðlilega reiður yfir að hann væri að koma,“ segir Anna og bætir við að Yiannopoulos spúi hatri á ógeðfeldan hátt. „Hann er á margan hátt grófari en Trump.“

Starbucks var meðal þeirra fyrirtækja sem varð illa úti í …
Starbucks var meðal þeirra fyrirtækja sem varð illa úti í mótmælunum. Búið er að stofan viðburð á Facebook þar sem nemendur eru hvattir til að hjálpa verslunareigendum að taka til eftir mótmælin. AFP

Í kjölfarið hafi hins vegar magnast upp æsingur, enda hafi Berkeley orð á sér sem mekka frjálshyggju og tjáningafrelsis. „Þannig að það er búin að vera að byggjast upp spenna á háskólasvæðinu sem að náði hápunkti í kvöld.“

Anna var ekki sjálf viðstödd mótmælin. Hún segist annars vegar ekki hafa talið þau áhrifaríka leið til að hafa áhrif. Hins vegar hafi skólayfirvöld varað erlenda nemendur við því að séu þeir handteknir við mótmæli, þá eigi þeir á hættu að missa vegabréfaáritun sína. „Það þarf rosalega lítið til að fólk missi vegabréfsáritunina,“ segir hún.

Lítill hópur ofbeldisfullra mótmælenda

Fyrirlestur Yiannopoulos átti að fara fram í Martin Luther King byggingunni, sem lögregla hafði girt af fyrr um daginn. Fljótlega eftir það fóru mótmælendur að safnast saman og segir Anna þá hafa verið nemendur, kennara og íbúa Berkeley og að mótmælin hafi farið friðsamlega fram framan af.  „Síðan kemur hópur svo nefndra „black bloc“ mótmælenda,“ segir hún. Það séu svartklæddir mótmælendur með lambhúshettu og svarta klúta fyrir vitum, sem sé undirbúnir fyrir ofbeldisfull mótmæli.

Þúsundir mótmæltu í Berkely í gær.
Þúsundir mótmæltu í Berkely í gær. AFP

Fljótlega eftir að harka færðist í mótmælin var tilkynnt að búið væri að aflýsa komu Yiannopoulosar, en margir héldu engu að síður áfram að mótmæla.

Óttast að Yiannopoulos fái nú aukið vægi sem álitsgjafi

Kveikt var í tré og ruslafötum, rúður brotnar og kveikt í flugeldum í mannfjöldanum. „Starbucks mun til að mynda væntanlega ekki opnað í dag, þar sem að þar var allt brotið og bramlað,“ segir Anna. Búið er að stofna viðburð á Facebook þar sem nemendur eru hvattir til að aðstoða við að tína upp rusl vegna óeirðanna í dag og hjálpa verslunareigendum að taka til hjá sér.  „ Það er samstaða meðal nemenda að þetta hafi gengið of langt.“

Anna segir umhugsunarefni hvort mótmælin hafi þveröfug áhrif við það sem til var ætlast. „Maður óttast að þetta leiði til þess að Yiannopoulos, sem hinn venjulegi Bandaríkjamaður hafði áður ekki hugmynd um hver væri, hafi núna fengið stærra svið en ella.  Að nú verði leitað til hans sem álitsgjafa, enda var hann fórnarlamb „ofbeldisfullra vinstri manna“ eins og hann orðaði það sjálfur.“

Milo Yiannopoulos er ritstjóri hægriöfga-fréttaveitunnar Breitbart.
Milo Yiannopoulos er ritstjóri hægriöfga-fréttaveitunnar Breitbart. Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert