Mega ekki falla fyrir kænskubrögðum Trump

Günther Öttinger, sem situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, varar ríki ESB …
Günther Öttinger, sem situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, varar ríki ESB við að falla fyrir klækjum Trumps. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er að reyna að sundra samstöðu ríkja Evrópusambandsins til að ná yfirhöndinni. Ríki ESB verða að vera vakandi til að falla ekki fyrir kænskubrögðum hans. Þetta sagði Günther Öttinger, sem situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

„Fyrst og fremst þá verðum við að passa okkur á því að taka ekki þátt í leik hans,“ sagði Öttinger í viðtali við útvarpsstöðina Deutschlandfunk radio.

Trump hefur að sögn Reuters-fréttastofunnar staðið fyrir harkalegum árásum á Þýskaland, sem er stærsta hagkerfi Evrópusambandsins. Hefur Trump m.a. sagt að ESB sé orðið lítið annað en miðill fyrir þýska hagsmuni og hefur hann spáð því að fleiri ríki en Bretland kjósi að ganga úr ESB.

Bandaríkjaforseti hefur einnig varað þýska bílaframleiðendur við því að hann muni setja 35% innflutningsskatt á bíla sem framleiddir eru utan Bandaríkjanna. Þá hefur helsti viðskiptaráðgjafi Trump sakað þýsk stjórnvöld um að halda gengi evrunnar alltof lágu til að ná yfirburðum gegn Bandaríkjunum og öðrum aðildarríkjum ESB.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur alfarið hafnað slíkum ásökunum. Hefur Merkel bent á að það sé Seðlabanki Evrópu sem hafi umsjón með evrunni.

Merkel var sá leiðtogi ESB-ríkjanna sem Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var í hvað mestu sambandi við. Lofaði Obama Merkel hástöfum og sagði hana vera „framúrskarandi félaga“ í kveðjuheimsókn sinni til Berlínar í nóvember.

Samskipti Þýskalands og Bandaríkjanna hafa hins vegar kólnað verulega eftir að Trump tók við. Öttinger hvatti ESB-ríkin til að vera öruggari í samskiptum sínum við Trump. „Okkar markaður er stærri,“ sagði hann. „Sameinuð erum við sterkari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert