Frá ferðabanni til lögbanns

James Robart, dómari við alríkisdómstól í Seattle, er allt í …
James Robart, dómari við alríkisdómstól í Seattle, er allt í einu orðinn einn umtalaðasti maður heims. AFP

Margir eru eilítið ruglaðir í ríminu eftir að alríkisdómari setti lögbann á ferðabann Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Samkvæmt því mega nú ríkisborgarar sjö ríkja, sem ferðabannið náði til, ferðast til Bandaríkjanna, hafi þeir til þess áritun eins og aðrir.

En hvað er eiginlega að gerast og hvað gæti gerst í framhaldinu?

Forsetatilskipunin

Samkvæmt tilskipun sem Bandaríkjaforseti skrifaði undir í síðustu viku máttu flóttamenn, óháð uppruna, ekki koma til Bandaríkjanna í 120 daga. Enn lengra var gengið varðandi sýrlenskt flóttafólk sem mátti ekki koma um óákveðinn tíma. 

Samkvæmt tilskipuninni máttu ríkisborgarar sjö landa ekki koma til Bandaríkjanna þó að þeir hefðu áður fengið vegabréfsáritun. Með öðrum orðum, áritanir þeirra voru gerðar ógildar í 90 daga. Löndin eru: Íran, Írak, Líbía, Sómalía, Súdan, Sýrland og Jemen.

Inngrip alríkisdómstóls

James Robart, sem er dómari við alríkisdómstól í Seattle, fyrirskipaði að tilskipun forsetans skyldi aflétt um öll Bandaríkin. Ákvörðun hans stendur þar til dómstóll mun fjalla um kæru sem ríkissaksóknari í Washington-ríki, Bob Ferguson, lagði fram. Í kæru Ferguson segir að tilskipun forsetans beinist með óréttlátum hætti gegn múslimum.

Fleiri alríkisdómarar, m.a. í Kaliforníu og New York, hafa einnig kveðið upp úrskurð gegn tilskipun Trumps en ákvörðun Robarts hefur haft meiri áhrif en þær allar.

Ferðabanni aflétt...í bili

 Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins í gær kemur fram að ferðabannið sé fellt úr gildi, þ.e. að þeir sem hafi áritun geti nú komið til Bandaríkjanna.

Dómarinn komst að því að forsetatilskipun Trumps bryti gegn ákvæðum …
Dómarinn komst að því að forsetatilskipun Trumps bryti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. AFP

Í tilkynningu heimavarnarráðuneytisins, sem m.a. hefur yfir landamæragæslunni að ráða, segir að gæslan yrði nú aftur samkvæmt „reglum og verklagi“.

Mörg flugfélög fóru þegar í gær að bjóða farþega frá löndunum sjö velkomna um borð í vélar sínar á leið til Bandaríkjanna. 

Utanríkisráðuneytið segir vegabréfsáritanir um 60 þúsund einstaklinga hafi nú aftur tekið gildi. 

Hvað gerir Trump næst?

Talsmenn Hvíta hússins segja að dómsmálaráðuneytið muni reyna að fá lögbanninu hnekkt. Verður málinu þá vísað til áfrýjunardómstóls. Taki sá dómstóll undir með dómaranum Robart gæti málið endað fyrir hæstarétti Bandaríkjanna, að því er lögfræðiprófessor við Temple-háskóla í Fíladelfíu hefur sagt í dag.

Eins og staðan er í dag er enginn ráðherra dómsmála í Bandaríkjunum. Tilnefning Jeffs Sessions til starfans á enn eftir að fara fyrir þingið.

Var það óvenjulegt að málið færi fyrir alríkisdómstól?

Í raun og veru ekki. Það sama gerðist varðandi forsetatilskipun Baracks Obama árið 2014. Tilskipunin átti að vernda ólöglega innflytjendur fyrir brottvísun frá landinu, hefðu þeir dvalið þar í fimm ár eða lengur. Alríkisdómari í Texas komst að því að Obama hefði farið út fyrir valdsvið sitt og kom þannig í veg fyrir gildistöku tilskipunarinnar. Sú ákvörðun fór alla leið upp í hæstarétt. Obama varð að hætta við.

Donald Trump hefur látið gamminn geisa á samfélagsmiðlinum Twitter vegna …
Donald Trump hefur látið gamminn geisa á samfélagsmiðlinum Twitter vegna lögbannsins. AFP

Hvaða lærdóm er hægt að draga?

Lögfróðir menn segja að persónulegar árásir Trumps á dómarann Robart séu óvenjulegar. „Þær eru ekki beinlínis lítilsvirðing við dómstólinn en sýna skort á virðingu fyrir sjálfstæði dómskerfisins,“ segir Laurence Tribe, prófessor við Harvard-háskóla. Annar prófessor tekur í sama streng og segir það ekki skynsamlegt að segja „svokallaður“ dómari, eins og Trump gerði. „Dómarar kunna ekki að meta það,“ segir Peter Spiro, prófessor við Temple-háskóla.

Hvað svo?

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur nú formlega áfrýjað niðurstöðu alríkisdómarans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert