„Hann barði mig alltaf í höfuðið“

Alexandra Glebova þekkir afleiðingar heimilisofbeldis í Rússlandi af eigin raun. Faðir hennar misþyrmdi henni andlega og líkamlega árum saman. 

„Hann barði mig alltaf í höfuðið,“ segir Glebova sem er 26 ára gömul. „Stundum barði hann mig svo fast að ég hentist til í herberginu eins og borðtenniskúla.“

Lagafrumvarp bíður nú undirritunar Vladimírs Pútín Rússlandsforseta en samþykki hann það verða refsingar þeirra sem beita heimilisofbeldi mildaðar. Í stað fangelsisvistar þurfa ofbeldismennirnir aðeins að greiða sekt.

Málið fékk snögga afgreiðslu í rússneska þinginu. Þingmennirnir sem mæltu fyrir frumvarpinu segja að hörð refsing við heimilisofbeldi jafngildi inngripi í einkalíf fólks. 

En frumvarpið hefur verið harðlega gagnrýnt af mannréttindasamtökum sem og fórnarlömbum heimilisofbeldis. Í Rússlandi er staðan þannig að oft heyrist ekkert af því ofbeldi sem á sér stað innan veggja heimilisins.

Faðir Glebovu beitti hana ofbeldi í fimm ár. Hann var aldrei kærður til lögreglu. Samþykkt frumvarpsins í þinginu hefur nú orðið til þess að Glebova hefur rætt ofbeldið í fyrsta sinn opinberlega. „Þessi lög eyðileggja líf,“ segir hún. „Þetta fjallar um fólk og yfirvöld eiga að vernda fólk. Í ljós kemur að þau vernda aðeins suma og aðra ekki neitt.“

Glebova býr nú ásamt kærasta sínum í Moskvu. Hún þjáist enn af þunglyndi og fær ítrekað martraðir um föður sinn sem hún lýsir sem harðstjóra. Hún hefur slitið öllu sambandi við hann. 

Í opinberri skýrslu sem gefin var út árið 2011 hefur ein af hverjum fimm konum í Rússlandi orðið fyrir líkamlegu ofbeldi frá maka sínum. Mannréttindasamtökin ANNA telja að 7.500 rússneskar konur hafi dáið af völdum heimilisofbeldis árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert