Fillon boðar til blaðamannafundar

Penelope og François Fillon.
Penelope og François Fillon. AFP

François Fillon, forsetaframbjóðandi Lýðveldisflokksins í Frakklandi, hefur boðað til blaðamannafundar síðdegis í dag en hart er sótt að honum vegna launagreiðslna til eiginkonu hans á sínum tíma. Helsti andstæðingur Fillons í baráttunni um tilnefningu flokksins, Alain Juppé, segir útilokað að hann taki sæti Fillons í kosningabaráttunni. Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram undir lok apríl.

Borgarstjórinn í Bordeaux Alain Juppé aftekur með öllu að fara …
Borgarstjórinn í Bordeaux Alain Juppé aftekur með öllu að fara í framboð fyrir flokk sinn en hann tapaði í forvalinu fyrir Fillon. AFP

Fillon mun ræða við fjölmiðla klukkan 16 að frönskum tíma, klukkan 15 að íslenskum tíma. Fylgið hefur hrunið af Fillon eftir að í ljós kom að eiginkona hans, Penelope, fékk greiddar 800 þúsund evrur í laun á tímabilinu 1998 til 2007 sem aðstoðarmaður eiginmanns síns í franska þinginu. Le Parisien greini frá því nýverið að samkvæmt upplýsingum frá franska þinginu (National Assembly) hafi hún aldrei einu sinni fengið aðgangskort sem starfsmaður þingsins þrátt fyrir að hafa greitt fyrir starf þar.  

Le Monde greinir frá því að rannsakað sé hvort Fillon hafi aðstoðað vin sinn útgefandann og milljarðamæringinn, Marc Ladreit de Lacharrière, við að hljóta eina æðstu orðu franska lýðveldisins, stórriddarakross Légion d’honneur gegn því að Penelope fengi starf hjá útgáfunni. 
 
Penelope Fillon fékk greiddar 100 þúsund evrur fyrir starfið en grunur leikur á að hún hafi unnið mest lítið. 

Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að Fillon, sem áður var talinn öruggur um að komast í seinni umferð forsetakosninganna eigi eftir að brotlenda hressilega í fyrri umferðinni. Fillon greiddi einnig tveimur börnum sínum laun fyrir að aðstoða sig, eða réttara sagt franskir skattborgarar greiddu þeim einnig laun líkt og eiginkonunni. Eitt helsta baráttumál Fillons í kosningabaráttunni er að fækka opinberum starfsmönnum og hefur hann heitið því að segja upp 500 þúsund ríkisstarfsmönnum verði hann kjörinn forseti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert