Trump: Byggi skoðanir „að mestu“ á gögnum

Donald Trump hefur í nógu að snúast á forsetaskrifstofunni í …
Donald Trump hefur í nógu að snúast á forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu. AFP

„Allar neikvæðar skoðanakannanir eru falsaðar fréttir,“ skrifar Donald Trump Bandaríkjaforseti á Twitter. Hann segist byggja skoðanir sínar „að mestu“ á gögnum. „Og allir vita það.“

Öngþveiti myndi skapast ef ferðabann Trumps yrði sett aftur á, að sögn lögfræðinga tveggja ríkja Bandaríkjanna. Bannið náði til ferðalaga ríkisborgara sjö landa. Tímabundið lögbann var sett á það á föstudag en í dag mun áfrýjunardómstóll taka kröfu ríkisstjórnar Trumps, um að setja ferðabannið aftur á, fyrir.

Tvö ríki, Washington og Minnesota, hafa hvatt áfrýjunardómstólinn í San Francisco til að ógilda ferðabannið fyrir fullt og allt. Bannið er byggt á tilskipun sem Trump samþykkti fyrir rúmlega viku.

Nokkur stór tæknifyrirtæki hafa stutt þessa kröfu og segja að ferðabannið hafi skaðleg áhrif á starfsemi þeirra. 

Ríkisstjórn Trumps á í dag að skila frekari gögnum til að rökstyðja þá kröfu sína að lögbanninu verði aflétt. 

Á meðan lögbannið er í gildi geta ríkisborgarar ríkjanna sjö ferðast til og frá Bandaríkjunum hafi þeir til þess gildar vegabréfsáritanir. Löndin sjö eru Írak, Sýrland, Íran, Líbía, Sómalía, Súdan og Jemen.

Trump brást mjög illa við niðurstöðu alríkisdómarans og sagði hana „fáránlega“. Hann hét því að fá henni hnekkt. Í gær sagði hann á Twitter að ef „eitthvað gerðist“ ætti að skella skuldinni á dómarann og dómskerfið. „Fólk streymir inn. Slæmt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert