Vill afsökunarbeiðni frá Fox News

Donald Trump segist bera virðingu fyrir Vladimír Pútín. Það þýði …
Donald Trump segist bera virðingu fyrir Vladimír Pútín. Það þýði samt ekki að hann láti sér lynda við hann. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi hafa farið fram á afsökunarbeiðni frá bandarísku Fox-fréttastofunni eftir að þáttastjórnandi kallaði Vladimír Pútín Rússlandsforseta „morðingja“ í viðtali við Donald Trump Bandaríkjaforseta. 

„Við teljum slík orð frá fréttamanni Fox News ólíðandi og móðgandi,“ segir talsmaður Pútíns,  Dmitry Peskov. „Í hreinskilni sagt þá myndum við kjósa að fá afsökunarbeiðni stílaða á forsetann frá svona virðulegu fjölmiðlafyrirtæki,“ bætti hann við.

Bill O'Reilly fréttamaður Fox News spurði Trump í viðtali í gær um meint tengsl Pútíns við dráp án dóms og laga, m.a. á blaðamönnum og mótmælendum. Sagði  O'Reilly m.a.: „Hann er morðingi samt sem áður, Pútín er morðingi.“ Á ensku voru ummælin orðrétt: „He's a killer though, Putin's a killer.“

Svar Trumps var á þessa leið: „Við erum með fullt af morðingjum. Heldurðu að okkar land sé svo saklaust? Skoðaðu það sem við höfum gert líka. Við höfum gert mörg mistök.“

Viðtalið við Trump var tekið í gær, og sýnt rétt fyrir úrslitaleikinn í ameríska fótboltanum, Super Bowl. Ummæli hans um Pútín hafa vakið hörð viðbrögð.

„Ég ber virðingu fyrir honum. En ég ber virðingu fyrir mörgum. Það þýðir ekki að mér lyndi við þá.“

Leiðtogi þing­meiri­hluta re­públi­kana í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings, Mitch McConnell, sagði um Pútín í viðtali við CNN: „Hann er fyrrverandi fulltrúi KGB [rússnesku leyniþjónustunnar] og bófi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert