Áfram landamæraeftirlit innan Schengen

AFP

Ríki Evrópusambandsins hafa samþykkt að framlengja tímabundið landamæraeftirlit innan Schengen-svæðisins um þrjá mánuði en upphaflega var gripið til eftirlitsins í nóvember 2015 til þess að bregðast við miklum straumi flóttamanna og hælisleitenda til sambandsins.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að ákvörðunin, sem hefur verið framlengd nokkrum sinnum áður, þýði að áfram verði eftirlit á landamærum Austurríkis að Ungverjalandi, Slóveníu og Þýskalandi sem og nokkrum stöðum á milli Norðurlandanna.

Heimilt er samkvæmt Schengen-sáttmálanum, sem Ísland á meðal annars aðild að, að taka upp landamæraeftirlit innan svæðisins við sérstakar aðstæður og er hægt að framlengja eftirlitið að hámarki í tvö ár. Hægt verður fyrir vikið að framlengja landamæraeftirlitið að hámarki fram í nóvember á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert