Lögmenn „grillaðir“ vegna ferðabanns

Andstæðingur Donalds Trump fyrir utan áfrýjunardómstólinn í San Francisco í …
Andstæðingur Donalds Trump fyrir utan áfrýjunardómstólinn í San Francisco í gær. AFP

Lögmenn ríkisstjórnar Bandaríkjanna voru spurðir rækilega út úr af dómurum við áfrýjunardómstól í San Francisco sem fjallar nú um kröfu stjórnvalda að aflétta lögbanni af ferðabanni sem Donald Trump setti á með forsetatilskipun.

Samkvæmt ferðabanninu gátu ríkisborgarar sjö landa ekki ferðast til Bandaríkjanna þó að þeir væru með gildar vegabréfsáritanir. Átti bannið að gilda í að minnsta kosti 90 daga fyrir almenna borgara en 120 daga fyrir flóttamenn. Viku eftir að það var sett á komst alríkisdómari í Seattle að þeirri niðurstöðu að bannið bryti í bága við stjórnarskrá og setti lögbann á það, sem gildir um allt landið. Lögbannið er þó aðeins tímabundið eða þar til dómstólar hafa fjallað um kæru ríkissaksóknara Washington og Minnesota sem telja bannið beinast gegn múslimum og sé því ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins. 

Í gær tók áfrýjunardómstólinn í San Franscisco kröfu ríkisstjórnarinnar fyrir og segja fjölmiðlar vestanhafs, m.a. CNN, að dómararnir hafi „grillað“ lögmann dómsmálaráðuneytisins og ítrekað beðið hann að sýna fram á tengsl landanna sjö sem bannið náði til og hryðjuverka. Þá spurðu þeir einnig rækilega út í hvort að bannið mismunaði fólki vegna trúarbragða. 

Ferðabann Trumps náði til ríkisborgara Sýrlands, Íraks, Írans, Súdans, Jemen, Líbíu og Sómalíu. 

Þrír dómarar við áfrýjunardómstólinn tóku málið fyrir í gær. Réttarhöldin voru sýnd í beinni útsendingu í sjónvarpi.

Við réttarhöldin sagði saksóknari ríkisstjórnarinnar að ferðabann Trumps væri sett á af öryggisásatæðum og að alríkisdómarinn hefði farið út fyrir sitt valdsvið með því að setja lögbann á það. Hann sagði að um væri að ræða „hefðbundna“ ákvörðun sem forsetanum bæri að taka. Sagði hann forsetatilskipunina fylgja ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Í dómsmálinu nú er aðeins verið að fjalla um hvort aflétta eigi lögbanninu af ferðabanninu, ekki að komast að niðurstöðu um hvort að bannið standist stjórnarskrá. Sá angi málsins bíður annars dómstóls og er líklegur til að enda fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna. 

Þjóðaröryggi eða mismunun?

Dómararnir þrír virtust oft efins er þeir hlýddu á rök ríkisstjórnarinnar. Spurður þeir m.a. August Flentje lögmann dómsmálaráðuneytisins út í sannanir fyrir tengslum á milli landanna sjö og hryðjuverka og út í það hvort að bannið mismunaði fólki vegna trúarbragða, rétt eins og upprunalega krafa ríkissaksóknara Washington-ríkis fjallar um.

Ríkisstjórn Trumps heldur því statt og stöðugt fram að bannið sé til þess að tryggja þjóðaröryggi. Það hafi verið sett á tímabundið til að gefa nýrri ríkisstjórn ráðrúm til að kanna verklag og til að halda „mögulegum hryðjuverkamönnum“ utan landsins.

 Saksóknari sem fer með málið fyrir hönd Washington og Minnesota, hvatti áfrýjunardómstólinn til að aflétta ekki lögbanninu á meðan kæra ríkjanna, sem studd er kröfum fjölmargra mannréttindahópa, verði tekin fyrir dóm. 

„Það hefur alltaf verið hlutverk dómskerfisins að staðfesta hver lögin eru og koma í veg fyrir misbeitingu framkvæmdavaldsins,“ sagði saksóknarinn Noah Purcell. „Það hlutverk hefur aldrei verið eins mikilvægt og núna, en forsetinn er að biðja um að tilskipunin verði sett aftur á áður en málið hefur fengið umfjöllun fyrir dómstólum og kallar öngþveiti aftur yfir.“

Purcell þurfti líka að þola erfiðar spurningar frá dómurum áfrýjunardómstólsins. Einn þeirra virtist ekki sannfærður um að ferðabannið jafngilti mismunun vegna trúarbragða. Sagði dómarinn að bannið næði aðeins til innan við 15% múslima heimsins. Purcell svaraði því til að ríkin tvö væru ekki að halda því fram að bannið skaðaði alla múslima heldur að bannið væri „innblásið að hluta af lönguninni til að skaða múslima.“

Illa undirbúinn

Sérfræðingar telja ekki mikla von á því að áfrýjunardómstóllinn aflétti lögbanninu. Líklegra sé að hann bíði eftir niðurstöðu dómstóla á kæru ríkjanna tveggja. 

Arthur Hellman, lögfræðiprófessor við háskólann í Pittsburgh, segir að það myndi koma sér á óvart ef úrskurðurinn félli ríkisstjórninni í vil. Hann sagði að lögmaður dómsmálaráðuneytisins hefði átt í erfiðleikum með að svara spurningum dómaranna. Hann hefði virst illa undirbúinn, sem hefði komið mjög á óvart. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert