„Hræðilegar afleiðingar fyrir konur“

Cecile Richards (til hægri), forseti Planned Parenthood, á blaðamannafundi í …
Cecile Richards (til hægri), forseti Planned Parenthood, á blaðamannafundi í bandaríska þinghúsinu í síðasta mánuði. AFP

Þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti tók við embætti í síðasta mánuði var ljóst að hann myndi fljótlega beina sjónum sínum að samtökunum Planned Parenthood, enda er hann harður andstæðingur fóstureyðinga.

Trump hefur heitið því að stöðva ríkisstyrki til þessara samtaka, sem hafa hagnað ekki á stefnuskrá sinni. Um 650 heilsugæslustöðvar þeirra eru staðsettar víðs vegar um Bandaríkin þar sem fóstureyðingar og annars konar heilbrigðisþjónusta er í boði.

Repúblikanar hafa lengi haft horn í síðu samtakanna þrátt fyrir að aðeins um þrjú prósent af þjónustu þeirra tengist fóstureyðingum, að sögn forsvarsmanna þeirra.

„Sem kona finnst mér eins og ráðist hafi verið á mig,“ sagði Shelby Weathers, 18 ára námskona sem AFP-fréttastofan ræddi við í miðstöð Planned Parenthood í borginni Phoenix í Arizona. Þar hefur hún aðgang að getnaðarvörnum.

„Það er mjög erfitt að heyra að fólk sé að reyna að draga úr aðgengi að heilbrigðisþjónustu.“

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Til marks um áherslur nýrrar Bandaríkjastjórnar hélt Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, ræðu á mótmælagöngu gegn fóstureyðingum í Washington þar sem hann lýsti því yfir að kosning Trump í embætti sannaði að „lífið er að bera sigur úr býtum í Bandaríkjunum“.

Trump sagði í tísti sínu að mótmælendurnir hefðu „fullan stuðning“ sinn.

Ekki tilbúin í þriðja barnið

Samaria hefur nýlega gengist undir fóstureyðingu í miðstöðinni í Phoenix. Hún er einstæð tveggja bjarna móðir sem var lengi vel mótfallin fóstureyðingum. Núna segist hún vera í ótryggu sambandi og er ekki tilbúin í þriðja barnið.

„Ég var mjög þunglynd,“ sagði hún með tárin í augunum. „Maður þarf að kveðja einhvern sem maður þekkir ekki einu sinni.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

2,5 milljónir nýta þjónustuna

Deanna Wambach, yfirlæknir Planned Parenthood í Arizona, hefur áhyggjur af því að ef stjórnvöld hætta að styrkja samtökin muni fjölmargir sjúklingar ekki lengur fá aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Alls nýta um 2,5 milljónir manna og kvenna þjónustu Planned Parenthood á ári og eru um 40% kostnaðarins við reksturinn greidd af ríkinu.

„Það hefði hræðilegar afleiðingar fyrir konur,“ sagði Wambach. „Bara í Arizona veitum við rúmum 33 þúsund konum þjónustu.“

Esther Harris (til vinstri) og Rosalie Emanuel halda á halda …
Esther Harris (til vinstri) og Rosalie Emanuel halda á halda á skiltum til stuðnings Planned Parenthood skömmu eftir að Trump tók við embætti forseta. AFP

Tengist ekki fóstureyðingum 

Gabrielle Godrick, sem framkvæmir fóstureyðingar á einkarekinni stöð í Phoenix, sagði að hótunin um að hætta að styrkja Planned Parenthood sé ekkert annað en „reykjarhula“ vegna þess að það hafi verið ólöglegt að nota opinbera sjóði í fóstureyðingar í áratugi.

„Það að hætta að veita ríkisstyrki tengist fóstureyðingum ekki neitt,“ sagði hún. „Þetta er árás á alla þá sem framkvæma fóstureyðingar og þeir látnir líta út fyrir að vera djöflar.“

„Þeir eru með þessu að hætta að styrkja skimun vegna krabbameins í leghálsi, brjóstakrabbameins og vegna kynsjúkdóma,“ bætti hún við.

Dagana eftir að Trump var kjörinn forseti varð 900% fjölgun á meðal þeirra sem óskuðu eftir getnaðarvörnum, að sögn Wambach. Hún leggur áherslu á að konur sem vilja fara í fóstureyðingu muni finna leiðir til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert