Óttast framtíð án FARC-liða

Kókabændurnir óttast hvað verður um þá þegar FARC-liðar láta sig …
Kókabændurnir óttast hvað verður um þá þegar FARC-liðar láta sig hverfa samkvæmt friðarsamkomulaginu. AFP

Kólumbía þokast í átt til friðar en á kókaökrunum, hvers uppskera hefur verið olía á eld áratugalangra átaka, óttast þorpsbúar að sitja eftir berskjaldaðir fyrir annars konar stríði.

Sögulegt samkomulag kólumbískra stjórnvalda og skæruliðasamtakanna FARC kallar á afvopnun síðarnefnda og stöðvun kókaræktunarinnar sem samtökin hafa hagnast á.

Stefnt er að því að rækta heilnæmari og hættuminni plöntur á kókaökrunum héðan í frá.

En í Narino, frumskógarvöxnu héraði á suðvesturströnd Kólumbíu, hafa íbúar haft lífsviðurværi sitt af hinum fagurgrænu kókaökrum. Þeir óttast að hafa ekki í sig og á og að brotthvarf uppreisnarmannanna muni gera þá berskjaldaða fyrir átökum annarra hópa.

Kókaakrar í Narino.
Kókaakrar í Narino. AFP

Öryggi

Íbúar á svæðinu greiddu liðsmönnum Byltingarhersins fyrir vernd frá öðrum aðilum að átökunum og stjórnvöldum, sem freistuðu þess að uppræta kókaframleiðsluna.

Í hálfa öld hafa íbúar Narino búið við ofbeldi og skærur uppreisnarmanna, eiturlyfjagengja, aðila í ólöglegum námugreftri og þeirra sem stunda mansal.

„Það var stríð milli ólíkra hópa um stjórn yfir svæðinu,“ segir Jesus Ramos, 42 ára kókabóndi í þorpinu Policarpa. „Um leið og FARC gefast upp og yfirgefa þorpið gerist það aftur sem hefur gerst síðustu ár.“

Í augum yfirvalda voru FARC-liðar miskunnarlaus uppreisnarlýður en í augum íbúa voru þeir verndarar.

Þegar FARC-liðar voru nálægir „var viðhöfð virðing. Þeir refsuðu hverjum þeim sem var með róstur,“ segir verslunareigandinn Roberto Delgado, 42 ára. „Við óttumst að þegar FARC fer, verði ekkert öryggi.“

Úr laufum kókaplöntunnar er unnið þykkni sem er aðalinnihaldsefni kókaíns.
Úr laufum kókaplöntunnar er unnið þykkni sem er aðalinnihaldsefni kókaíns. AFP

Lífsviðurværi

Kólumbía er stærsti kóka- og kókaínframleiðandi heims, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Úr kókalaufunum er unnið þykkni sem er aðalinnihaldsefni kókaíns.

Samkvæmt fyrrnefndu friðarsamkomulagi hafa FARC samþykkt að láta af viðskiptum með kókaplöntuna og tengdar afurðir og umbreytast í stjórnmálasamtök.

Ríkið hefur heitið því að koma að málum með því að sjá bændum fyrir öðrum plöntum til ræktunar.

„Það er vonarglæta í þessu ferli að þau hafa skuldbundið sig til að heiðra sögulega skuld sína til að vinna á fátæktinni sem plagar þetta svæði,“ segir Ramiro, leiðtogi FARC í Narino. „Nú verðum við að finna aðrar leiðir til að draga fram lífið.“

Íbúar treysta því hins vegar ekki að það muni gerast án verndar uppreisnarsamtakanna.

„Þegar FARC eru ekki hér mun fólk koma og rífa upp uppsprettuna og það verður engin vinna fyrir okkur,“ segir Delgado. „Ef kókaplantan fer, verður ekkert eftir. Fólk lifir á henni.“

Diositeo Matitui dregur fram lífið á kókaræktun.
Diositeo Matitui dregur fram lífið á kókaræktun. AFP

Tekjur

Íbúarnir hafa ekki trú á því að þeir muni afla sömu tekna af annarri uppskeru á þessu einangraða og fátæka svæði.

„Við öflum tekna af kókaplöntunni því aðrar plöntur gefa ekki jafnmikið af sér,“ segir Alexandra Matitui, 30 ára. Föt hennar eru slitin og hendurnar bera merki erfiðisvinnu.

Kókaplantan er sú eina sem hún hefur séð dafna á svæðinu.

Einn hektari af kókaplöntunni gefur af sér 330 dali á mánuði, segir Matitui. Reitur sömu stærðar þar sem ræktaðar eru jarðhnetur, lárperur eða kakóbaunir skila helmingi þeirrar upphæðar.

Kókaframleiðslan var það sem fæddi Matitui og klæddi í barnæsku og nú fæðir hún börnin sín með ágóðanum af ræktuninni. Hún gerir þig ekki ríkan, segir hún, en hún sér þér fyrir viðurværi.

Matitui segir kókaplöntuna auðvelda í ræktun; fyrsta uppskeran sé tilbúin eftir sex mánuði en eftir það gefi plantan af sér á þriggja mánaða fresti. „Það sem meira er; það er engin þörf til að flytja hana til borgarinnar. Kaupendurnir koma hingað.“

Fordómar

Claudia Cabrera, borgarstjóri Policarpa, segir neyðarástand blasa við íbúum. „Ef stjórnvöld ná ekki samkomulagi við bændur um upprætingu ræktunarinnar munu félagsleg vandamál gera vart við sig.“

Borgarstjórinn ber ávallt skotvopn enda hafa henni borist hótanir frá vopnuðum hópum.

„Ríkisstjórnin hefur engar afsakanir. Hún hefur alltaf útskúfað okkur sem miðpunkti átaka,“ segir Cabrera. „Nú þarf að fjárfesta hér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert