Trump segist munu virða „eitt Kína“

Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi í vikunni.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi í vikunni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fullvissaði leiðtoga Kína, Xi Jinping, um að bandarísk stjórnvöld hefðu áfram í heiðri sjónarmiðið um „eitt Kína“, en svo kallast það viðhorf að viðurkenna aðeins tilvist Kína á meginlandinu, en ekki eyríkið Taívan hinum megin við Taívansundið.

Stjórnmálaskýrendur telja ljóst að Trump vilji með þessu símtali, sem fram fór á milli leiðtoganna í gærkvöldi, reyna að draga úr þeirri spennu sem ríkt hefur á milli ríkjanna tveggja eftir að hann tók við embætti forseta.

„Trump forseti samþykkti, að beiðni Xi forseta, að virða stefnu okkar um „eitt Kína“, segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu. Þá hafa leiðtogarnir boðið hvor öðrum í opinbera heimsókn til ríkja sinna.

Kosningabarátta Trumps fól í sér ítrekuð ófögur orð um stjórnvöld Kína, sem hann sakaði um að misnota gengi gjaldmiðla ríkjanna og ræna störfum af bandarískum þegnum.

Þá vakti furðu margra þegar hann ræddi við forseta Taívans, Tsai Ing-wen, skömmu eftir að hann tók við embættinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert