„Hættið að drepa hjólreiðamenn“

Þrír hjólreiðamenn og tveir gangandi vegfarendur létu lífið í umferðinni …
Þrír hjólreiðamenn og tveir gangandi vegfarendur létu lífið í umferðinni í London í liðinni viku. Mynd úr safni. /AFP

Hjólreiðafólk efndi í dag til svokallaðra „dó í“-mótmæla í miðborg Lundúna til að vekja athygli á umferðaröryggi. Hjólað var niður að fjármálaráðuneytinu þar sem mótmælendurnir kröfðu yfirvöld um að auka útgjöld hins opinbera til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda í borginni.

Í síðustu viku einni létu þrír hjólreiðamenn og tveir gangandi vegfarendur lífið á götum borgarinnar en árið 2016 létust alls níu hjólreiðamenn í borginni. Þá kölluðu mótmælendur einnig eftir því að gripið yrði til aðgerða til að draga úr loftmengun í borginni.

Við ráðuneytið lögðu mótmælendur hjól sín í jörðina, lögðust á blautt malbikið og héldu þannig mínútu þögn í minningu hinna látnu.

„Við höfum fengið nóg af brauðmylsnunni, við þurfum alvörufjármagn,“ sagði Donnachadh McCarthy, einn stofnenda mótmælendahóps sem ber nafnið „Hættið að drepa hjólreiðamenn,“ (e. Stop Killing Cyclists). „Tvær pínulitlar hjólreiðabreiðgötur hafa verið byggðar og þær hafa skilað miklum árangri. Þær marka upphaf byltingar sem ætti að breiðast um alla London,“ segir McCarthy.

Mótmælendurnir vilja að borgaryfirvöld leggi meira fé í að bæta innviði borgarinnar undir hjólreiðar og aðgengi gangandi vegfarenda. Margir mótmælendanna í dag báru einnig gasgrímur til að mótmæla mikilli loftmengun í borginni sem fer stöðugt versnandi að því er fram kemur í frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert