Tæknifyrirtækin gegn „fölskum fréttum“

Tim Cook.
Tim Cook. AFP

Tæknifyrirtæki verða að gerast öflugri í að tækla „falskar fréttir“, segir Tim Cook, forstjóri Apple. „Við þurfum öll að skapa tæki til að draga úr magni falskra frétta,“ sagði hann í samtali við Daily Telegraph.

„Við þurfum að reyna að gera þetta án þess að traðka á tjáningarfrelsinu og fjömiðlafrelsinu, en við verðum líka að aðstoða lesandann.“

„Mörg okkar eru bara að takast á við kvartanir núna og hafa ekki fundið út hvað er hægt að gera.“

Cook átti fund með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, á fimmtudag. Hann sagði í viðtalinu að stjórnvöld ættu einnig að láta til sín taka og upplýsa almenning.

„Okkur vantar nútímaútgáfu af almannahagstilkynningunum (e. public-service announcement). Það má gera það fljótt, ef vilji er til,“ sagði hann.

„Við erum að fara í gegnum tímabil þar sem það fólk sem er að sigra er því miður það sem ver tíma sínum við að fá flesta smelli, ekki segja mestan sannleika. Það er á suman hátt að drepa huga fólks.“

„Falskar fréttir“ (e. fake news) eru fréttir skáldaðar í hagsmunaskyni. Þær komust í umræðuna á meðan kosningabaráttan stóð yfir fyrir forsetakosningarnar vestanhafs en Facebook er meðal þeirra fyrirtækja sem hafa verið gagnrýnd hvað harðlegast fyrir að beita sér ekki af afli gegn fyrirbærinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert