Engin afsökun fyrir „leiksýningunni“

Donald Trump Bandaríkjaforseti sætir nú gagnrýni eftir að myndir tóku að birtast á samfélagsmiðlum af honum og Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, þar sem þeir eru umkringdir aðstoðarmönnum sínum á sveitaklúbbi í eigu Trumps í kjölfar fregna af eldflaugatilraun stjórnvalda í Norður-Kóreu.

Samræðurnar, sem að öllu jöfnu myndu fara fram á bak við luktar dyr, náðust á mynd sem dreift var á Facebook.

Ljóst var af færslu Richard DeAgazio, sem tók myndina og deildi henni, að honum þótti þessi reynsla mjög spennandi.

„Forsætisráðherra Japans ræðir við starfsfólk sitt og Trump í símanum við Washington DC. Leiðtogarnir ræddu síðan sín á milli og fóru inn í annað herbergi fyrir skyndilegan blaðamannafund. Vá [...] í miðjum hasarnum,“ skrifaði DeAgazio á vefinn.

Þegar forsetinn er fjarri Hvíta húsinu er venjan sú að slíkar samræður fari fram í sérstökum húsakynnum, sem eru einangruð fyrir fram. 

„Það er engin afsökun fyrir því að leyfa slíkri alþjóðakrísu að fara fram fyrir framan fullt af félögum sveitaklúbbs, eins og eitthvert kvöldverðarleikhús,“ segir leiðtogi demókrata á Bandaríkjaþingi, Nancy Pelosi.

Skjáskot/Business Insider
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert