„Ofursmitarar“ dreifðu Ebóla-veirunni

Kona í Gíneu bólusett við veirunni. Mynd úr safni.
Kona í Gíneu bólusett við veirunni. Mynd úr safni. AFP

Flestir þeirra sem sýktust af Ebóla-veirunni, í faraldrinum sem hófst árið 2014 og reið yfir Vestur-Afríku, smituðust af völdum svokallaðra „ofursmitara“. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem birtar voru í dag.

Rannsóknin, sem gerð var við Vísindastofnun Bandaríkjanna, þykir sýna hvernig slíkir „ofursmitarar“ geta verið ákaflega hættulegir þegar kemur að faröldrum smitsjúkdóma.

Faraldurinn var sá stærsti í sögu Ebóla-veirunnar, en fleiri en 11.300 manns létu lífið, þar af margir eftir að hafa sinnt öðrum sem voru veikir eða jafnvel grafið lík nákominna.

„Núna sjáum við hlutverk ofursmitara sem stærra en okkur grunaði áður,“ segir meðhöfundur greinarinnar, Benjamin Dalziel, aðstoðarprófessor í líffræði við Oregon-háskóla, í samtali við fréttastofu AFP.

61% sýktust af 3%

„Það voru tilfellin sem þú sást ekki til sem virkilega knúðu faraldurinn, sérstaklega fólk sem lést heima hjá sér án þess að komast til hjálparmiðstöðvar.“

Á tíma faraldursins töldu rannsakendur aðeins þau mál sem komu til kasta slíkra stöðva, en uppgötvuðu síðar að það var aðeins lítið brot heildarfjöldans.

„Það var ekki mikið um smit eftir að fólk hafði náð á sjúkrahús og hjálparmiðstöðvar,“ segir Dalziel.

„En við okkar greiningu á gögnunum þá gátum við séð nokkurs konar smitvef, sem teygði sig oft aftur til ofursmitara í nærsamfélagi þeirra sem höfðu sýkst.“

Þegar allt var talið varð þeim ljóst, að 61% þeirra sem veiktust fengu sjúkdóminn frá litlum hópi fólks, sem jafngildir aðeins þremur prósentum smitaðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert